Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Skrítin myndanotkun í útkallsbók

Fékk mér bók á bókasafninu um daginn, eina úr útkalls-bókaflokkinum. Þessi fjallaði um ásiglingu breskrar freygátu á varðskipið Tý í þorskastríðinu 1975 (minnir mig; búinn að skila bókinni og þá fara hlutir eins og ártöl fljótlega fyrir bí). En það var dálítið skrítin upplifun að lesa þessa bók. Burtséð frá því að þetta hefði verið flott efni fyrir dágóða tímaritsgrein og að það þurfti endalausar endurtekningar á sömu atriðunum upp aftur og aftur og aftur til að  koma þessu í bókarlengd (plús mjög skrítnar mannamyndabirtingar á öftustu síðunum), þá sá ég að stór hluti myndanna í bókinni voru frá mér, birtar án míns samþykkis, - án þess ég væri spurður, ef út í það er farið. Ég sumsé fór í þriggja vikna túr með Tý í þessu þorskastríði, fyrir Þjóðviljann sálaða, og átti eftir það mikið filmusafn og mynda- af árekstrum, togvíraklippingum, togurum á veiðum og herskipum að reyna að flækjast fyrir varðskipunum, daglegu lífi um borð o.s.frv. Þetta filmusafn lánaði ég Sveini Sæmundssyni, höfundi ævisögu Guðmundar Kærnested skipherra, þar sem mikið af myndunum birtist; Sveinn skilaði þessu öllu til mín eftir notkun. Höfundur útkalls-flokksins virðist hafa skannað þessar myndir úr bókinni og birtir þær í sinni bók án þess að tala við kóng eða prest. Eru þetta ekki eiginlega dálítið dónaleg vinnubrögð.
(Vil geta þess hér innan sviga að í útkallsbókinni er frásögn Óla Tynes, þá blaðamanns á DV, af ástandinu um borð í bresku freygátunni sem sigldi á Tý, hreint ómetanleg heimild.)


Eðlilegt vinnuumhverfi kennara?

Það hefur vakið nokkurt umtal að kennara í grunnskóla á Seltjarnarnesi hafa verið dæmdar bætur frá móður nemanda síns, eftir að nemandinn hafði slasað kennarann svo mjög að hann er 25% öryrki eftir og hefur ekki getað stundað vinnu sína um nokkurra mánaða skeið. Nemandinn er fatlaður, með Asbergen heilkenni. "Hvernig dettur kennaranum í hug að fara í mál við fatlað barn?" hafa menn spurt og auðvitað er það mögnuð staða sem kennarinn er þarna í. Ég vil spyrja annarrar spurningar: "Hvernig stendur á því að starfsumhverfi kennara er slíkt að vinnuveitandi hans ber enga ábyrgð gagnvart kennaranum á því sem aflaga fer í skólastarfinu?" Fleiri spurningar: "Hvernig stendur á því að skólinn er sýknaður af bótakröfum kennarans á þeirri forsendu að rennihurð sem nemandinn skellti á höfuð kennarans var í lagi? Snýst þetta mál virkilega um bilaða hurð eða hurð í lagi?" Mér finnst þetta mál snúast um starfsaðstöðu kennarans. Kennari verður fyrir alvarlegu slysi í vinnunni, vegna aðstæðna sem ekki eru á neinn hátt honum að kenna og hann getur ekki ráðið við. Og vinnustaðurinn, atvinnurekandinn, er stikk frí. Ef kennarinn hefði ekki verið svo "heppinn" að móðir nemandans er með heimilistryggingu hefði hann gengið bótalaus frá þessu slysi. Sem 25% öryrki með skerta starfsgetu. Þetta er auðvitað galið ástand. Það er lágmarkskrafa að launþegar - opinberir eða á einkamarkaði - njóti slysa- og óhappatryggingar í vinnunni. Raunar ætti það að vera lágmarkskrafa að fyrirtæki og stofnanir séu með þess konar tryggingar.

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband