Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Vegna ritstjórnargreinar; þróunaraðstoð eða „útrás“?

Seinni ritstjórnargrein Moggans sl. þriðjudag fjallaði um viðtal við Einar Magnússon lyfjamálastjóra um háttalag lyfjafyrirtækja í Víetnam. Sem er vægast sagt hrollvekjandi og gefur ískyggilega mynd af því hvernig stórfyrirtæki nýta sér bág kjör og aðstæður til að leggja undir sig heilbrigðismarkaðinn; jafnvel beita áróðri til að grafa undan svokölluðum þjóðlegum lyfjum. Afar fróðlegt að lesa og staðfestir verstu grunsemdir okkar sem treystum svona stórhringjum ekki fyrir einu eða neinu.
En það er annað í viðtalinu við Einar sem er byggt á miklum misskilningi og höfundur ritstjórnargreinarinnar tekur undir þann misskilning og heldur honum á lofti. Það er þegar Einar ber saman þróunaraðstoð Dana og Svía. Danir noti þróunaraðstoð til að hygla dönskum fyrirtækjum og aðstoða þau við að koma sér upp mörkuðum. Svíar á hinn bóginn veiti þróunaraðstoð án skilyrða og vinni á forsendum heimamanna. Íslendingar og fleiri þjóðir geti lært af Svíum að greina á milli þróunaaðstoðar og viðskipta.
Þarna fara bæði Einar og höfundur ritstjórnargreinar þriðjudagsins í Mogganum með fleipur, sem ugglaust á sér skýringu í vanþekkingu, þótt iðulega hafi verið hamrað á þessu undanfarið í fjölmiðlum. Íslendingar hafa markað sér skíra stefnu í þróunarsamvinnu; hún er gerð á forsendum heimamanna. Við höfum notað sænsku aðferðina um langt árabil. Danir notuðu þá aðferð líka þar til fyrir nokkrum árum, en breyttu þá um stefnu.

Merkisárið 2008

Ég var að átta mig á því að árið í ár er merkisár, hvorki meira né minna. Það eru fimmtíu ár síðan fyrsti árgangurinn var útskrifaður í Gagnfræðaskólanum við Réttarholtsveg, Gaggó Rétt. Þar með eru líka fimmtíu ár síðan ég hóf sjómennskuferil (fyrsta brottför 16. maí 1958) sem með tímanum átti að leiða til skipstjórnar á togara; þar með einnig fimmtíu ár síðan ég byrjaði að reykja, því í þann tíð reyktu togarajaxlar, filterlausan Camel vel að merkja. Fimmtíu ár líka frá því ég smakkaði áfengi í fyrsta sinn, en ég var óttalegur eymingi í því fyrstu árin; það breyttist og svo breyttist það aftur til betra horfs. Og í ár, 24. apríl meira að segja, voru tuttugu ár síðan ég hætti að reykja; það var í 60 ára afmælisveislunni hans Erlings Viggóssonar sem ég var tóbakslaus í fyrsta sinn í þrjátíu ár og hefur ekki langa í tóbak allar götur síðan. Alveg satt.

Ég ætla ekki að halda upp á reykingarnar eða áfengið eða sjómennskuna sem varð hvort eð er endaslepp vegna bágrar sjónar (það var bannað að nota gleraugu ef maður ætlaði í Stýrimannaskólann; þar fór það), en ég ætla að halda upp á útskriftina úr Gaggó Rétt með skólafélögunum og ég ætla að hjálpa félaga Erlingi Viggóssyni að halda upp á áttræðisafmælið 1. maí. Þar verður örugglega gaman og fullt af fólki sem maður hefur ekki séð árum saman.

Hljómar þetta ekki soldið aldrað?


Fáránleikinn á LSH

Það er búið að vera soldið dapurlegt að fylgjast með þróuninni á LSH, þar sem skurðhjúkrunarfræðingar eru að ganga á dyr. Og næstum fyndið að heyra forstjórana vonast til þess að hjúkrunarfræðingarnir sýni þá samfélagslegu ábyrgð að koma til starfa verði kallað á þá í neyðartilfellum. Í sama knérunn var hoggið þegar vika eða svo var til þess að hjúkrunarfræðingar gengju á dyr; vísað var til ábyrgðartilfinningar hjúkrunarfræðinga gagnvart sjúklingum.

En hvað um ábyrgðartilfinningu stjórnar spítalans? Eða heilbrigðisráðuneytisins? Bera þeir aðilar enga ábyrgð á því ástandi sem komið er upp?

Hefði til dæmis ekki verið eðlilegra ferli að kynna breytingar á vaktakerfi fyrir starfsfólkinu með góðum fyrirvara og reyna um leið að gera samning við hjúkrunarfræðinga um að bæta þeim upp þann tekjumissi sem minnkandi aukavinna hefur í för með sér? Um það snýst jú málið. Öll viljum við stytta vinnutímann, sem á Íslandi hefur jaðrað við brjálsemi, en það verður auðvitað að gerast í takt við hækkað dagvinnukaup. Nógu er nú erfitt að lifa af kaupinu sínu hér á landi með aukavinnunni.

Allt þetta mál er kennsludæmi um það hvernig alls ekki á að vinna að breytingum.


Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband