Leita í fréttum mbl.is

Lækka launakostnað hins opinbera!

Óneitanlega er það ekki sérlega björt sýn á næstu framtíð sem Steingrímur Joð færir okkur með nýju fjárlagafrumvarpi. Þó var alltaf ljóst að gjaldtaka hins opinbera myndi óhjákvæmilega aukast; ástandið einfaldlega kallar á það, svo skítt sem er að þurfa að viðurkenna það. Það er hins vegar lærdómsríkt að fylgjast með viðbrögðum helstu frjálshyggjupostulanna við ríkjandi ástandi, þeirra sem eiga kannski ekki minnsta sök á ríkjandi ástandi. Bjarni Ben er skelfingu lostinn yfir því að hér sé kominn til valda vinstri stjórn sem einblíni á skattahækkanir. Vilhjálmur Egilsson er á sama hátt æfur yfir skattahækkunum, sem eru af hinu vonda hjá honum eins og Bjarna Ben o.fl. Vilhjálmur má þó eiga að hann bendir á leið sem hægt er að fara í stað skattahækkana. Hann vill "minnka launakostnað hins opinbera". Minnka launakostnað hins opinbera! Sem þýðir hvað? Á venjulegu mannamáli heitir þetta að hvetja til uppsagna opinberra starfsmanna, - sem svo aftur hefði í för með sér aukið atvinnuleysi og þar af leiðandi auknar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í hverju felst þá eiginlega lausnin, Villi?

Annar fyllerísfundur erlendis?

Það var merkilegt að fylgjast með andköfum framsóknartvíeykisins í sjónvarpinu mínu í gær, þegar þeir báru Íslendingum boð Norðmanna um 2000 milljarða (íslenskra) króna lán. Þetta hljómaði óneitanlega merkilega, ekki síst þegar því var í þokkabót haldið fram að engin beiðni hefði komið fram frá íslenskum stjórnvöldum til norskra um lán. Passaði nú ekki alveg við það sem vitað var. Enda kemur í ljós að þeir Sigmundur Davíð og Höskuldur fóru með fleipur. Andateppan var ástæðulaus. Ekkert svona boð hefur komið fram. Annað hvort eru þeir félagar svo slakir í norsku að þeir hafa ekki skilið þar sem sá norski þingmaður sagði við þá eða þá að þeir hafa látið óskhyggjuna ná tökum á sér. Langað að verða boðberar góðra tíðinda og bjarga þjóðinni úr skuldafjötrum. Voru bara of fljótir á sér, einsog framsóknarmanna er stundum háttur.

Aðrir Norðmenn en þessi Miðflokksmaður kannast ekkert við málið.

Þetta minnir óneitanlega á drykkjufundinn fræga í London forðum, þegar Davíð Oddsson og Hreinn Loftsson skiptust á kjaftasögum við viskídrykkju og Davíð fékk þá flugu í höfuð að Bónus hafi ætlað að múta sér með 300 milljónum.

Framsóknarmennirnir komu þó a.m.k. með hærri upphæð af sínum fundi.


Hrossakaup Borgarahreyfingarinnar

Það hefur verið dapurlegt að hlusta á þingmenn Borgarahreyfingarinnar í dag. Þeir eru dottnir í farið sem þeir gagnrýndu sem mest og buðu sig fram og voru kosnir til að breyta. Gömlu góðu hrossakaupastjórnmálin. Þór Saari hefur að vísu frá upphafi sýnt sig að vera þrætubókarpólitíkus af gamla skólanum, sem eyðir stórum hluta máls síns í útúrsnúninga og dylgjur. En einhvern veginn hélt ég að Birgitta Jónsdóttir væri af öðrum toga; hugsjónamaður sem ætlaði sér að stunda annars konar stjórnmál en þau sem hún gagnrýndi fyrir að vera lokuð og ólýðræðisleg.

En nú er hulunni flétt af. Atkvæði þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar eru komin með verðmiða. "Við skulum greiða atkvæði með stjórnarfrumvarpi um aðildarviðræður, ef . . .". Birgitta segir að þetta flokkist ekki undir hennar skilgreiningu á hugtakinu hrossakaup. Lengi skal manninn reyna; það væri gaman að vita hvernig sú skilgreining er. 

En það er kannski ágætt að gríman skuli falla; maður veit þá að minnsta kosti hvaða meðöl verða notuð í framtíðinni. Samt er þetta svolítið sorglegt, sérstaklega vegna þess að í kosningabaráttunni sögðust þau myndu styðja aðildarumsókn að ESB.


Strætó

Strætó er rekstrarlegt furðuverk, þar sem reynt er að láta opinberar samgöngur standa undir sér með því að gera þjónustuna sífellt dýrari og sífellt lélegri. Eiginlega má segja að Strætó hafi - eins og reyndar Íslandspóstur - unnið að því með festu og einurð að gera þjónustuna svo lélega að enginn vilji nota hana. Og tekist það.

Í Osló brugðust menn öðru vísi við. Þar stóðu borgaryfirvöld frammi fyrir skelfilegum taprekstri strætisvagna og jarðlesta (almannasamgangna sumsé) vegna sífellt færri farþega. Hvað gerðu þau? Þau gerðu tilraun. Fjölguðu ferðum og lækkuðu fargjöld. Reiknuðu út að það tæki svo sem fjögur fimm ár aðkomast á núllið ef tilraunin tækist. Ári síðar var þegar orðinn lítilsháttar arður af kerfinu. Þetta ættu kannski þeir sem reka Strætó að taka til fyrirmyndar. Bæta þjónustuna í stað þess að gera fyrirtækið sífellt ónothæfara fyrir almenning. Ég er viss um að í kreppu með gengi og bensinverð í hæstu hæðum myndu fleiri ferðast með almenningsvögnum ef þeir væru raunverulegir valkostir.


Stytting skóla - launalaust leyfi

"Ég leyfi mér að segja að það er ekkert víst að stytting sem þessu nemur (10 dagar; innskot HMH) sé skaðleg fyrir nemendur," segir bæjarstjórinn á Ísafirði í Fréttablaðinu í dag. Svona eiga menn auðvitað ekki að tala. "Það er ekki víst" eru engin rök í svona máli; hér eiga nemendurnir að njóta vafans. Það er nefnilega rétt sem fram kemur hjá Eiríki Jónssyni, formanni Kennarasambands Íslands, í sömu frétt, að "þetta er inngrip í líf barna og unglinga og þeirra tækifæri kemur aldrei aftur". Sú menntun sem felld er niður kemur ekki inn í líf þessara nemenda síðar; þeir koma úr skólanum með minni menntun sem niðurfellingunni nemur. Málið er ekki flóknara en það.

Halldór bæjarstjóri er enn í þessu viðtali við það heygarðshorn að starfsmönnum sveitarfélaga verði veitt launalaust leyfi í 10 daga gegn 5% launalækkun. Þetta mun vera svokölluð Akureyrarleið, þótt Akureyringar segi hana komna frá Ísafirði. Ekki liggur fyrir að þeir sem halda þessari leið á lofti hafi kynnt sér allar hliðar málsins. Hver eru t.d. réttindi þeirra sem slasast eða veikjast í launalausu leyfi? Það er þannig að ýmis félagsleg réttindi manna eru bundin starfi þeirra og ef þeir fara í launalaust leyfi rofnar skylda atvinnurekandans; starfsmaðurinn er ekki á launum og nýtur þar af leiðandi ekki kjarabundinnar verndar.


Heija Norge og til hamingju Ísland.

Það er ekki hægt annað en að vera stoltur af henni Jóhönnu Guðrúnu og íslenska genginu öllu í Evrósýninni áðan. Annað sætið á eftir Norðmönnum með skemmtilegt lag og skelfilegan texta. Gaman að vera hálfnorskur undir svona kringumstæðum og vera eiginlega bæði í fyrsta og öðru sæti. En mesta hrósið fá eiginlega Rússarnir; hvílíkur brilljans í sjóbíssnis sem þarna kom fram. Bæði í kvöld og í undanrásunum. 

Til hvers heldur þessir maður að hann sé á Alþingi?

Það er í sjálfu sér ekki margt gáfulegt sem komið hefur frá formanni Framsóknarflokksins eftir að hann var kjörinn á þing. Hann virðist a.m.k. ekki enn vera búinn að átta sig á því til hvers Alþingi eiginlega er. Það skín úr þeirri vandlætingu sem frá honum streymir, þegar hann hneykslast á því að leggja eigi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að Ísland sæki um aðild að ESB og fari í framhaldinu í samningaviðræður við sambandið. Þetta heitir í munni Sigmundar Davíðs að ríkisstjórnin sé að velta ákvörðuninni í málinu yfir á stjórnarandstöðuna! Svona rugl sýnir skrítinn skilning á þingræðinu. Til hvers í fjáranum heldur þessi maður að hann hafi verið kjörinn á þing? Og til hvers heldur hann að Alþingi sé?

Þingmenn eru kjörnir til þess að taka ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar; þeir eru fulltrúar þjóðarinnar og eiga að vinna fyrir hana. Þess vegna er bæði sjálfsagt og eðlilegt að þeir taki þátt í svo mikilvægri ákvörðun sem þeirri að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það er kannski framsóknarlegt en  ekki karlmannlegt að kveinka sér undan því.


ESB = Sovétríkin?!

Andstæðingar Evrópusambandsaðildar fara nú hamförum í blaðagreinum og bloggfærslum. Það er eins og með annað; sumar röksemdirnar byggjast á eðllegri tortryggni, aðrar á rakalausu ofstæku. Í gær hitti ég, í Kringlunni, gamlan vin frá því á árunum fyrir Samfylkingu og VG; við voru flokksbræður í Alþýðubandalaginu, meira að segja í sama arminum. Svo fór hann í VG og ég í Samfó. "Aldrei hefði ég greitt atkvæði með inngöngu í Sovétríkin," sagði þessi gamli félagi, "og mun aldrei greiða atkvæði með inngöngu í ESB." Sagðist ekki sjá þar mikinn mun á. Kannski stigsmun, en ekki eðlis.

Hvernig er hægt að rökræða við svona ofstæki? Halda menn virkilega að Eystrsaltsríkin hafi átt þá ósk heitasta að ganga í ný Sovétríki eftir að þau öðluðust sjálfstæði? Eða að gömlu austantjaldsríkin þrái það heitast að fá glata sjálfstæði sínu á nýjan leik í nýju Sovéti? Ætla menn að halda því fram að íbúar þessara landa séu upp til hópa aular sem ekki séu alveg að fatta þá frelsissviptingu og sjálfstæðistap sem þeir eru að kjósa yfir sig, þegar þeir kjósa sig inn í ESB nýsloppnir úr austantjaldsklafanum?

Það er eðlilegt að menn séu ósammála um svo veigamikið mál, en svona málflutningur er bara ekki boðlegur.


Ísland 2009

Ísland 2009 slettist framan í andlitið á mér í dag. Viðurkenni að ég hafði ekki áttað mig á þessum hluta hluta fyrr. Við hjón erum að fara til að eyða páskunum hjá dóttur og dótturdóttur í Drammen og ég skaust inn í bankaútibú í Kringlunni og sagði rétt sisona að ég ætlaði að fá þúsund norskar krónur. "Ertu með farmiðann?" spurði gjaldkerinn. Þegar hún sá furðusvipinn á mér sagði hún að svona gengju málin fyrir sig í dag; maður kemur með farseðilinn og fær þá gjaldeyri eftir að gjaldkerinn hefur skráð hjá sér upplýsingar af seðlinum. Þetta heita svo sannarlega gjaldeyrishöft. Ég held ég sé að ná mér.

Þvæla hjá Kolbrúnu Stefáns

Var að horfa og hlusta á kynninguna í Kraganum í sjónvarpinu. Fyrir utan að vera að því kominn að vorkenna Bjarna Benediktssyni fyrir það hlutverk sem hann hefur tekið að sér er ég eiginlega alveg gáttaður á að frambjóðendur sem vilja láta taka sig alvarlega skuli láta frá sér aðra eins þvælu og Kolbrún Stefánsdóttir, frambjóðandi Frjálslynda flokksins. Hún fullyrti ítrekað að ef Ísland gengi í Evrópusambandið myndum við missa öll yfirráð yfir auðlindum okkar. Gerði jafnvel lítið úr hugmyndum Samfylkingarinnar um innköllun aflaheimilda á löngum tíma vegna þess að flokkurinn vildi á sama tíma ganga í ESB og þá skipti engu hvað við vildum; Brussel myndi taka yfir stjórnina og við hefðum ekkert um fiskimiðin að segja.
Það hlýtur að vera einhvers konar áfellisdómur yfir málflutningi Samfylkingarinnar að ekki skuli vera búið að koma staðreyndunum um þetta inn í allan almenning. Þessi fullyrðing er nefnilega röng. Úthlutun veiðiheimilda innan ESB byggist á veiðireynslu. Og veiðireynslu innan íslenskrar lögsögu hafa engir nema Íslendingar. Sem þýðir að Íslendingar sitja að öllum veiðum innan lögsögunnar og engum kvóta yrði úthlutað til annarra og Íslendingar myndu sjálfir ráða því hvaða stjórnkerfi myndi ríkja yfir fiskveiðunum.
Hitt er svo annað mál, - og sýnir alvarleika þess málþófs sem nú er iðkað af Sjálfstæðismönnum á Alþingi fyrir atbeina LÍÚ, - að það er úrlausnarefni okkar sjálfra að þjóðareign fiskistofnanna sé ótvíræð fyrir inngöngu í ESB.

Næsta síða »

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband