Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Sri Lanka - falleg eyja í hernaðarástandi

Það var - og er enn - ansi skrítið ástandið í Colombo, höfuðborg Sri Lanka í síðustu viku, þegar ég var þar ásamt Sighvati Björgvinssyni framkvæmdastjóra og Gunnari Salvarssyni upplýsingafulltrúa Þróunarsamvinnustofnunar (ÞSSÍ/Iceida). Það er hernaðarástand á eyjunni og beðið eftir hefndaraðgerðum Tamíla eftir að nokkrir úr röðum forystumanna þeirra voru felldir í loftárás fyrir nokkrum vikum. Á öllum götum voru hermenn og lögreglumenn, gráir fyrir járnum, og vegatálmanir, þar sem leitað var á grunsamlegu fólki og í farartækjum. Við þremenningarnir erum ekki sérlega tamílalegir útlits og þá ekki heldur þeir Árni Helgason stöðvarstjóri og Gunnar Þórðarson verkefnisstjóri ÞSSÍ á eyjunni. Við vorum raunar oftast í bíl merktum Iceida og því ekki stöðvaðir við vegatálma heldur veifað áfram.

Þann 27. nóvember er hetjudagur Tamíla og menn búast allteins við að þeir grípi til hefndaraðgerða til að geta stært sig af þeim við það tækifæri. Hugga sig þó við að Tamílarnir hafa yfirleitt ekki ráðist á skotmörk sem valdið geta almenningi skaða heldur svokölluð "soft targets", sem valda skaða á "infrastrúktúrnum"; reyna kannski að taka ráðherra með í leiðinni.

Hvað sem vegatálmum leið og hermönnum og lögreglumönnum þá var umferðarmenningin kannski forvitnilegust, eða kannski skorturinn á sýnilegum umferðarreglum. Ég var eiginlega mest hissa á að sjá hvergi dældaðan bíl því umferðin í Colombo er svo fullkomlega kaótísk að undrun sætir. Ég sá t.d. hvergi merki um hámarkshraða, en bílstjórnarnir voru þó duglegir við að gefa stefnuljós þegar þeir létu vaða fyrir aðra bíla og flautan var óspart notuð.

En það er bannað að að taka myndir þar sem hernaðarástand ríkir; ekki má taka mynd þar sem hermenn eða lögreglumenn voru á ferli og raunar alls ekki af neinu; eitt sinn er ég var í göngutúr eftir einni götunni tók ég upp myndavélina og mundaði hana í átt að gilskorningi sem þarna var, með yfirgrónum járnbrautarteinum og Indlandshafið í baksýn, flott mótív. Þá var klappað á öxlina á mér og þar var srilanskur hermaður með vélbyssu um öxl og kurteislegt bros á vör. "Forbidden," sagði hann. "En þetta er ekki einu sinni militarískt myndefni," mótmælti ég. "Sorry, forbidden," sagði dátinn kurteislega og brosti enn. Svo ég vitaskuld hætti við myndatökuna.

Þetta er skrítið andrúmsloft og blessunarlega langt frá okkar íslenska veruleika.

 

Miklir fundir - falleg eyja

Svona ferðir eru vinnuferðir í orðsins fyllstu. Við sátum fundi með sjávarútvegsráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og gæðarannsóknarstofnun í fiskimálum, auk grasrótarsamtaka sem Iceida er í samvinnu við í uppbyggingu í fiskimannaþorpum. Þar var meðal annars rætt um mögulega þátttöku ÞSSÍ í félagslegri uppbyggingu í mun fleiri fiskimannaþorpum á sunnan- og austanverðri eynni. Afar áhugaverð verkefni.

Við fórum og skoðuðum tvö þessara þorpa og þá aðstöðu sem ÞSSÍ  er að aðstoða heimamenn við að  koma upp. Þá kynntumst við í fyrsta lagi þeirri ótrúlegu náttúrufegurð sem þessi litla eyja hefur yfir að ráða og eyjaskeggjar eru sér fyllilega meðvitaðir um (Sri Lanka = Paradís heimsins). Í öðru lagi fengum við að reyna vegakerfi sem annar í raun ekki þeirri umferð sem um það fer; Árni sagði okkur að gera mætti ráð fyrir að komast 30 km vegalengd til jafnaðar á klukkutíma. Í þriðja lagi kynntumst við því sama þarna og raunin hefur verið í þeim Afríkulöndum sem ég hef heimsótt í sömu erindagjörðum; mikil aðdáun á skilvirkni í vinnubrögðum ÞSSÍ og þakklæti fyrir það starf sem stofnunin vinnur, í samstarfi við heimamenn. Þarna ræður örugglega ekki síst sú staðreynd að Þróunarsamvinnustofnun vinnur í samvinnu við heimamenn að verkefnum sem þeir velja og þurfa á að halda, á forsendum heimamanna.


Góður árangur alvöru flokksstarfs

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með því hve aðkoma Samfylkingarinnar að ríkisstjórn hefur gengið snuðrulaust fyrir sig. Ráðherrarnir gengu inn í ráðuneytin og voru samstundis farnir að taka til höndum; stefnan klár frá upphafi og ermarnar brettar upp.
Góður vinur minn, framsóknarmaður raunar, hafði einmitt orð á þessu við mig um daginn. Sjálfur hafði ég svo sem ekki tekið sérstaklega eftir þessu, kannski ómeðvitað gert ráð fyrir þessum gangi mála. En þegar framarinn vinur minn hafði orð á þessu áttaði ég mig á því að einmitt þannig höfðu málin gengið fyrir sig, smurt.
Það þurfti svo sem ekki að velta lengi vöngum yfir ástæðunni. Þetta er árangur þess mikla starfs sem málefnahópar flokksins um flesta þætti samfélagsins hafa unnið undanfarin ár. Ýmsir andstæðingar flokksins gerðu grín að þessari áherslu á málefnahópa; töldu nær að leggja áherslu á dægurpólitíkina frá degi til dags. En nú hefur þetta starf sannað sig; flokkurinn mætti til samstarfsins með stefnu tilbúna í öllum málum. Fékk vitaskuld ekki allt samþykkt í stjórnarmyndunarviðræðum en þessi klára afstaða hefur efalaust átt þátt í því að viðræðurnar gengu hratt og vel fyrir sig og að áherslurnar í stjórnarstarfinu eru allt aðrar og lystugri en þær sem giltu í síðustu ríkisstjórn.
Það verður svo að segjast eins og er, að ráðherrar flokksins hafa staðið sig með sóma og miðað við yfirlýsingar þeirra eiga þeir eftir að styrkja stöðu flokksins enn frekar.
Svona á að vinna.

Sniðgöngum Krónuna

Er það ekki svolítið dapurlegt að hlusta á verslunarstjóra Krónunnar halda því fram að það sé ekkert óheiðarlegt við það að láta sérpakka verðkannanakjöti og fela það fyrir neytendum; það sé á svo lágu verði að ekki sé hægt að ætlast til þess að viðskiptavinirnir fái að kaupa það!
Hvar er eiginlega siðferði svona fólks? Er þetta kannski bara ríkjandi viðskiptasiðferði; að leitast skuli við að láta neytendur greiða eins hátt verð fyrir vöru og þjónustu og hægt er að komast upp með?
Ef eitthvert vit væri í íslenskum neytendum myndu þeir auðvitað sniðganga þessar verslanir, hætta að kaupa þar inn og snúa sér annað. En því miður er lítil von til þess; Íslendingar eru orðnir svo vanir því að láta valta yfir sig með alls konar skepnuskap án þess að bera hönd fyrir höfuð sér. En samt: Ég skora á landsmenn að hætta að versla við Krónuna!
Það er bersýnilegt að frumvarp Björgvins G. um neytendavernd er borið fram á réttum tíma. Og kannski verða allir þeir þingmenn sem lýstu harmi sínum yfir skollaleik lágvöruverslananna á Alþingi í dag tilbúnir til að styðja það.

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband