Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Reynir Traustason nær nýrri lægð

Það var óneitanlega fræðandi að lesa leiðara DV sl. fimmtudag (20. des.), þar sem hann fjallar um Ríkisútvarpið. Oft hafa talsmenn hinna svokölluðu frjálsu fjölmiðla tekið djúpt í árina þegar þeir fjalla um þá skelfilegu stefnu RÚV að halda uppi dagskrá sem áhorfendur kunna að meta og vilja horfa á. En Reynir nær hér nýjum hæðum (eða lægðum; eftir því hvernig á það er litið) í froðufellandi geðvonskukasti. Stór hluti leiðarans er skammir út í Sjálfstæðisflokkinn, sem ég get ekki sagt að ég taki mjög nærri mér. En það er þessi lýsing á dagskrá sjónvarps RÚV, sem eiginlega gerir mann kjaftstopp: "Sápan lekur af flestum dagskrárliðum og sópranósiðferði ræður. Í dag er staðan sú að allt eins væri réttlætanlegt að ríkið stæði að útgáfu Séð og heyrt sem gerir út á skemmtifréttir en á líf sitt undir hinum frjálsa markaði. Ríkisútvarpið er í dag skækja Sjálfstæðisflokksins sem stefnulaus ráfar um lendur íslenskrar pólitíkur og veit ekki muninn á einkarekstri og opinberum. . . ."
Og þetta kemur frá ritstjóra DV.


Verðmæt reynsla hjá Birni Bjarnasyni

Best að taka það fram strax: Ég er ekki sammála því að börn eða önnur skyldmenni stjórnmálamanna og annarra valdamanna séu átómatískt útilokuð frá embættaveitingum, hafi þeir í ríkum mæli til þess þá eiginleika sem embættið krefst. En er þetta ekki einum of gróft? Árni Mathiesen skipar aðstoðarmann Björns Bjarnasonar, son Davíðs Oddssonar, í embætti þótt þrír umsækjenda um embættið hafi verið metnir hæfari en hann. Bítur síðan höfuðið af skömminni með því að halda því fram að reynslan sem aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar vegi þungt í vali hans. Annað hvort er Árni Mathiesen húmoristi af guðsnáð eða gjörsamlega laus við að kunna að skammast sín.

Palestína og alþjóðasamfélagið

Auðvitað var það rétt sem flestir vissu en kunnu ekki við að segja til að skemma ekki veika von; Annapolis-fundurinn var aldrei annað en yfirvarp. Þar átti aðeins að vefja enn einn þráðinn í þann blekkingarvef sem ofinn hefur verið um málefni Palestínu og Ísraels með dyggri aðstoð svokallaðs alþjóðasamfélags.

Það er reyndar merkilegt hvað þetta "alþjóðasamfélag" missir bæði sjón og heyrn þegar málefni Palestínu og íbúa hennar komast í umræðuna. Það hefur miklar áhyggjur af íbúum Dalfúrhéraðs, stórar áhyggjur af því hvort íbúar Kósóvó lýsa yfir sjálfstæði, líður illa yfir mannréttindabrotum og hugsanlegum kosningasvikum í Rússlandi og geta varla sofið vegna áhyggna af klerkastjórninni í Íran og herforingjastjórninni í Mjanmar. En fjöldamorð á íbúum Palestínu og markviss eyðilegging á tilverugrundvelli þeirra er látin afskiptalaus.

Það er meira að segja komið í tísku hjá fína og fræga fólkinu að fara til Darfúr og láta ljósmynda sig hjá illa förnum fórnarlömbum hungurs og ofbeldis. Þannig er vakin athygli á því skelfilega ástandi sem þar ríkir. Og full ástæða til.

Nú var ísraelski herinn að ráðast inn á Gazasvæðið með tugum skriðdreka og jarðýtum, tveimur dögum fyrir skipulagðan viðræðufund forystumanna Palestínu og Ísraels. Inn á svæði sem fyrir þessa innrás var eitt skelfilegasta svæði heims til að búa á. Skilmerkilegar frásagnir Sveins Rúnars Haukssonar læknis frá heimsókn til Gaza í nóvember segja hræðilega sögu um markvissa rústun samfélags fólks sem unnið hefur sér það eitt til saka að vera til. Almennir borgarar eru myrtir, heimili lögð í rústir, skolpræsi eyðilögð, akrar eyðilagðir eða þeir innlimaðir í Ísrael með aðskilnaðarmúrnum alræmda, vatnskerfi eyðilögð. Og "alþjóðasamfélaginu" þykir þetta auðvitað afskaplega leiðinlegt en yppir öxlum og gerir ekkert til að stöðva þetta framferði. Og fína og fræga fólkið fer örugglega ekki til Palestínu til að láta taka myndir af sér með íbúum hennar. Það gæti komið sér illa fyrir það heima fyrir.

Ráðamenn í Ísrael vilja ekki frið og þeirra helsta verkefni er að koma í veg fyrir að viðræður geti borið þann árangur að Palestínuríki verði stofnað til hliðar við Ísrael. Og kvartettinn illræmdi er verri en ekkert með strengjabrúðuna Tony Blair í einhvers konar framkvæmdastjórahlutverki

Á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir ári kom til tals í umræðuhópi um alþjóðmál hvort hægt væri að koma upp samskonar "boycott"-herferð gagnvart Ísrael og gert var gagnvart apartheitstjórninni í Suður-Afríku á sínum tíma. Hætta að bjóða ísraelskum íþróttamönnum í keppnir, útiloka þá frá þátttöku í Eurovision (sem út af fyrir sig er furðuleg; ekki er Ísrael í Evrópu), kaupa ekki varning frá Ísrael, meina ísraelskum námsmönnum námsvist í háskólum o.s.frv., o.s.frv.

Þetta finnst mér vera fín hugmynd; væri hægt að hleypa af stað félagsskap sem hefði þetta að markmiði?

Frekari upplýsingar má finna á www.palestina.is. Þar er um auðugan garð að gresja og margar tengingar á vefi erlendis. 


Málfrelsið er til sölu

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með afstöðu vinstrigrænna til tillögu allra hinna um að breyta þingsköpum Alþingis, einna helst takmarkaðri ræðutíma en nú tíðkast. Prívat og persónulega er ég frekar andstæður þröngum takmörkunum á ræðutíma þingmanna; lít svo á að þingmenn eigi að geta tjáð sig eins og þeir þurfa um þau málefni sem til umræðu eru. Tek þó undir að 15 mínútur eigi að duga nokkuð vel til rökstuðnings í flestum málum, ekki síst þegar menn geta síðan talað í eins margar fimm mínútur og þeir vilja við 2. umræðu. En mótbárur VG-ista formgerðust þó aðallega í setningunni "málfrelsið er ekki til sölu". Af fréttum gat ég aldrei séð eða heyrt að einhver hefði gert tilboð í málfrelsið, en svona setningar hljóma flott í fréttatímum og sýna einarða og grjótharða afstöðu hugsjónamannsins.

Svo kom Steingrímur Joð í viðtal í gær, í Kastljósi minnir mig. Hjá honum kom fram að vinstrigrænir væru ekki tilbúnir til að standa með öllum hinum í þessu máli, - nema til kæmu aukin áhrif þeirra á stjónun og starf þingsins. Þá væru þeir til viðtals um þær breytingar á þingsköpum sem hinir vildu.

Málfrelsið er sem sagt til sölu!


Gagnsemi þróunaraðstoðar

Nokkuð hefur verið fjallað um þróunarhjálp síðustu daga, innan bloggheima og utan. Þar hafa einkum þrjár greinar vakið athygli mína; Sólrún María Ólafsdóttir ritar um þróunarhjálp og Malaví í Morgunblaðið 29. nóvember, Hannes Hólmsteinn Gissurarson um gagnslausa þróunaraðstoð í Fréttablaðið 30. nóvember og loks bloggar Ívar Pálsson um þróunarlausa aðstoð 1. desember.

Það er mikill munur á þessum þremur greinum, Sólrúnar Maríu annars vegar og hinum tveimur hins vegar. Þær eiga það hins vegar allar sameiginlegt að í þeim er vitnað til orða þeirra landlæknishjóna Sigurðar og Sigríðar í viðtölum eftir að þau komu heim eftir ársdvöl í Malaví.

Sólrún María hefur það framyfir þá félaga Hannes Hólmstein og Ívar að hún þekkir málefnið sem hún skrifar um, enda starfar hún hjá Þróunarhjálp Sameinuðu þjóðanna. Hún veit hvað hugtakið þróunaraðstoð felur í sér. Það virðast þeir Hannes og Ívar hins vegar ekki gera; a.m.k. fer það svo, að þegar þeir leita dæma til að sýna fram á tilgangsleysi þróunaraðstoðar þá grípa þeir til dæma á borð við matargjafir og peningagjafir til spilltra valdhafa í þróunarríkjunum. Slíkar gjafir eru ekki þróunaraðstoð, ekki heldur fatagjafir sem oft hafa átt sér stað eftir velheppnaðar safnanir hér á landi og annars staðar. Þróunaraðstoð er aðstoð við uppbyggingu og getur tekið mörg ár; fata- og matargjafir eru neyðarhjálp sem ætlað er að bæta úr brýnni, tímabundinni neyð. Ég vona að þeir Hannes Hólmsteinn og Ívar telji það ekki hugmyndafræðilega rangt að koma í veg fyrir að fólk deyji úr hungri eða krókni úr kulda.

Það verður að segjast eins og er að þeir sem til þekktu furðuðu sig nokkuð á þeim ummælum sem höfð voru eftir landlæknishjónunum við komuna heim frá Malaví. Ekki vegna þess að þau væru í eðli sínu röng, heldur vegna þess að framsetningin var slík að halda hefði mátt að stofnunin sem þau hjónin unnu hjá þetta ár, Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ), iðkaði þau vinnubrögð sem þau voru að gagnrýna, m.a. gagnslausar peningagjafir. Sem er alrangt.

Íslendingar hafa markað ákveðna stefnu í þróunaraðstoð sinni við þriðja heims ríki. Stefnan sú byggist á að gera heimamenn færa um að hjálpa sér sjálfir. Þessi stefna kristallast í starfi ÞSSÍ, sem tekið hefur þátt í fjölda verkefna í Afríkuríkjunum Úganda, Malaví, Mósambík og Namibíu, auk tiltölulega nýrra verkefna í Níkaragúa og á Sri Lanka. Þessi verkefni eru á sviði menntamála (fullorðinsfræðsla, leikskólar, barnaskólar, heyrnleysingjaskólar) og annarra félagslegra málefna.

Ágætis dæmi um eðli starfsins eru t.d. sjómannaskólinn í Walvis Bay, Namibíu og rannsóknarstofa fiskiðnaðarins í Mapútó, Mósambík. Á báðum stöðum var starfsfólk menntað og þjálfað, kennarar og stjórnendur á öllum sviðum í Walvis Bay og starfsmenn, rannsóknarfólk og stjórnendur víða að af landinu í Mapútó. Reksturinn er kominn í það horf að Namibíumenn hafa tekið alfarið við sjómannaskólanum í Walvis Bay, sem viðurkennt er að er fullkomnasti sjómannaskóli í Afríku og þótt víðar væri leitað. Í rannsóknarstofu fiskiðnaðarins í Mosambík hefur verið byggt upp öflugt eftirlitskerfi með gæðum sjávarafla, þar sem lokamarkmiðið er að ná þeim gæðastaðli sem þarf til að komast inn á markað Evrópusambandsins. Á báðum þessum stöðum er lokamarkið að gera íslenska leiðbeinendur þarflausa, þannig að heimamenn geti tekið við og rekið sínar eigin sjálfbæru stofnanir, með öruggum tekjustofnum. Í Walvis Bay er því takmarki náð og enginn Íslendingur eftir við skólann, Mósambík er farið að flytja fisk á Evrópumarkað, beinlínis vegna þess gæðastarfs sem rannsóknarstofan hefur verið að skipuleggja vítt um landið með aðstoð ÞSSÍ.

Þetta er þróunarhjálp, þróunarsamvinna sem á sér stað í fullkominni samvinnu við sveitarstjórnir viðkomandi svæðis og það ráðuneyti sem viðkomandi starfsemi heyrir undir, á forsendum heimamanna. Að telja slíka aðstoða gagnslausa (HHG) eða þróunarlausa (ÍP) felur í sér fullkomna vanþekkingu á málefninu.


Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband