31.1.2008 | 14:23
Friðum Vatnsmýrina fyrir arkitektum og lóðabröskurum
Æ, hvað ég varð feginn þegar einn af ráðherrum Samfylkingarinnar lýsti því yfir um daginn að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Þar vil ég hafa hann og hef alltaf viljað.
Einkum og sér í lagi hafa mér hugnast illa þau rök sem gjarnan er haldið á lofti af þeim sem vilja völlinn burt að á vallarsvæðinu séu svo verðmætar lóðir og því nauðsynlegt að byggja þar. Að flytja flugvöllinn til hagsbóta fyrir lóðabraskara er ekki sú pólitík sem ég aðhyllist.
Ég er að vísu búinn að sætta mig við að einhvern tíma í framtíðinni verði flugvöllurinn kannski fluttur. Þá tek ég því auðvitað, með æðruleysi og fýlukasti. Og geri þá kröfu að hann fari sem styst; Hólmsheiðin gæti verið góð þótt þá þurfi að vísu að flytja væntanlegt fangelsi sem þar átti að reisa.
En fari flugvöllurinn er nauðsynlegt að nýta svæðið til bætts mannlífs í Reykjavík. Þarna er mikið flæmi og hægt að gera þar stórkostlega útivistarparadís fyrir borgarbúa (og raunar landsmenn alla) í skipulagslegum tengslum við það mennta- og fræðaumhverfi sem þar er þegar risið. Umfram allt má ekki setja þennan demant í hendurnar á fólki sem sér bara peninga þar sem aðrir sjá fegurð og mannlíf.
Undanfarið hefur ekki mátt sjást svo lófastór blettur í Reykjavík að ekki sé innan tíðar búið að troða niður á hann arkitektúrísku hryðjuverki upp á 15+ hæðir, allt með það markmið að leiðarljósi að lóðanýtingin sé sem mest og gróðinn því sem mestur í vasa lóðareigenda og byggingaverktaka.
Þessi spor hræða. Þess vegna eigum við að friða Vatnsmýrina fyrir arkitektum og lóðabröskurum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Vefsvæðið mitt Flest það sem máli skiptir um mig og mína
- Samfylkingin Flokkurinn sem máli skiptir
- Kennarasamband Íslands Heildarsamtök kennara
- Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins Vinnustaðurinn minn
- Upplýsingatækniskólinn Merkasti skólinn i Tækniskólanum
- Þróunarsamvinnustofnun Starfsemi Íslendinga með þróunarlöndum
Athugasemdir
Eins og talað út úr mínu hjarta.
Ef við lokum flugvellinum til að fá svo eitthvað sem líkist Smáralind eða Borgartúni á svæðið þá er verra af stað farið en heima setið.
Ég legg til að við látum flugvöllinn eiga sig þangað til við höfum lært að standa upp í hárinu á verktökum.
Næsta mál á dagskrá er þá væntanlega: Hvernig komum við lýðræðinu í sæmilega nothæft ástand svo þessi 15 hæða hryðjuverk verði ekki byggð?
Kári Harðarson, 31.1.2008 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.