31.1.2008 | 14:26
Áminntir skólameistarar
Ég sá í Fréttablaðinu í dag að skólameistarinn okkar í Iðnskólanum í Reykjavík hefur verið áminntur formlega ásamt öðrum skólameistara, auk þess sem þrír aðrir hafa fengið tiltal fyrir að telja vitlaust þá nemendur sem stundað hafa nám í skólanum og verða sér þannig út um meiri pening úr ríkissjóði en efni stóðu til. Meira að segja var því haldið fram í fréttinni að framhaldsskólarnir væru reknir fyrir peninga úr sameiginlegri púlju og með því að taka of mikið úr þessum sameiginlega sjóði væru þessir skólameistarar að hafa fé af öðrum skólum. Þetta síðasta er auðvitað eins og hver önnur þvæla; hver skóli fær ákveðna upphæð á fjárlögum og hún lækkar ekki þótt einhverjir fari yfir fjárveitingu.
Haft er eftir menntamálaráðherra í fréttinni að skólarnir fimm hafi fengið fé umfram það sem þeir áttu rétt á og það hlaupi á milljónum. Hún segir ekki búið að ákveða hvort skólarnir þurfi að endurgreiða ofgreidd framlög, segir þar.
Það skrítna við þetta mál er að rekstrarfé Iðnskólans í Reykjavík var um 1,2 milljarðar á síðasta ári og sú fjárhæð sem deilt er um nemur sem svarar 0,4% af þeirri upphæð; um fjórum milljónum. Þar fyrir utan var rekstur skólans undir fjárveitingum sem nemur liðlega prósenti. Skólinn fór sem sagt ekki umfram fjárveitingar.
Aðferðin við talningu á nemendum framhaldsskóla, ekki síst verkmenntaskóla, hefur lengi verið deiluefni milli skólanna og ráðuneytisins. En nú er eins og embættismennirnir hafi búið sér til flækju sem þeir eiga erfitt með að losa sig úr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Vefsvæðið mitt Flest það sem máli skiptir um mig og mína
- Samfylkingin Flokkurinn sem máli skiptir
- Kennarasamband Íslands Heildarsamtök kennara
- Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins Vinnustaðurinn minn
- Upplýsingatækniskólinn Merkasti skólinn i Tækniskólanum
- Þróunarsamvinnustofnun Starfsemi Íslendinga með þróunarlöndum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.