21.1.2009 | 10:27
Þetta gengur ekki lengur; kosningar í maí!
Ég er ekki mikið fyrir samsæriskenningar; finnst þær ansi oft byggjast á einhvers konar ofsóknarbrjálæði. Ég ber líka virðingu fyrir þeim sem ekki vilja ganga frá óunnu verki meðan allt er að fara í kalda kol í þjóðfélaginu. En nú er jafnvel langlundargeði mínu ofboðið.
Ég sé ekki betur, miðað við upplýsingar sem smátt og smátt eru að birtast staðfestar í fjölmiðlum, en að þröngur hópur sjálfstæðismanna hafi um nokkurra missera skeið vitað hvert stefndi hjá bankakerfinu og hvaða afleiðingar það myndi hafa. Þessir menn, með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra í fararbroddi virðast hafa fengið hverja framtíðarsýnina á fætur annarri frá fræðimönnum og -konum, þar sem bent var á hætturnar, varað við afleiðingunum og gefin ráð um hversu fara skyldi að til að minnka skaðann. Þessum skýrslum var stungið undir stól, þeim haldið leyndum fyrir samstarfsmönnum og bankarnir látnir halda siglingunni áfram.
Sumir Samfylkingarráðherrar, með formanninn í forystu, hafa til þessa ekki viljað láta boða til kosninga í vor, þannig að nýr þingmeirihluti geti sótt sér umboð til kjósenda. Menn hafa ekki viljað fara frá hálfkláruðu verki (ef það er þá hálfklárað enn). Þetta er virðingarverð skoðun, en nú er sá tími liðinn að hún geti verið marktæk. Undirferli óheiðarleiki samstarfsflokksins í stjórnarsamstarfinu hefur opinberast með þeim hætti að ekki verður við það unað. Ráðherrar Samfó hafa verið að gera góða hluti og örugglega sárt fyrir þá að þurfa hugsanlega að ganga frá góðum málum hálfkláruðum. En svona getur þetta bara ekki gengið lengur.
Ég segi enn það sem ég hef sagt áður á þessum vettvangi: Kjósum í maí. Tilkynnum kjördag í endaðan febrúar. Þá liggi fyrir að fullu hver viðfangsefni komandi missera verði í uppbyggingu nýs Íslands. Þá geta flokkarnir hver um sig, eða einhverjir í sameiningu, lagt fram galopna og gegnsæa áætlun um hvernig þeir hyggjast vinna úr vandamálunum. Þar með verður lokið tíma lýðskrums og upphrópana og flokkarnir verða að taka sig saman í andlitinu og leggja fram sínar tillögur. Og kjósendur fá að velja þa leið sem þeir vilja fara, - með þeim flokki eða flokkum sem þeir treysta til starfsins. Þetta gildir auðvitað líka um hugsanleg ný framboð. Svo mætti gjarnan nota tækifærið og leggja fram hugmyndir um breytt skipulag á stjórnkerfinu. Til dæmis að skerpa skilin á milli löggjafarþingsins og framkvæmdavaldsins. Þingmenn segi af sér þingmennsku verði þeir ráðherrar eða - og það er ekki síðra skipulag - að sóttir verði hæfir menn út í samfélagið til að gegna ráðherraembættum. Og svo framvegis, og svo framvegis.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Vefsvæðið mitt Flest það sem máli skiptir um mig og mína
- Samfylkingin Flokkurinn sem máli skiptir
- Kennarasamband Íslands Heildarsamtök kennara
- Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins Vinnustaðurinn minn
- Upplýsingatækniskólinn Merkasti skólinn i Tækniskólanum
- Þróunarsamvinnustofnun Starfsemi Íslendinga með þróunarlöndum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.