Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Áminntir skólameistarar

Ég sá í Fréttablaðinu í dag að skólameistarinn okkar í Iðnskólanum í Reykjavík hefur verið áminntur formlega ásamt öðrum skólameistara, auk þess sem þrír aðrir hafa fengið tiltal fyrir að telja vitlaust þá nemendur sem stundað hafa nám í skólanum og verða sér þannig út um meiri pening úr ríkissjóði en efni stóðu til. Meira að segja var því haldið fram í fréttinni að framhaldsskólarnir væru reknir fyrir peninga úr sameiginlegri púlju og með því að taka of mikið úr þessum sameiginlega sjóði væru þessir skólameistarar að hafa fé af öðrum skólum. Þetta síðasta er auðvitað eins og hver önnur þvæla; hver skóli fær ákveðna upphæð á fjárlögum og hún lækkar ekki þótt einhverjir fari yfir fjárveitingu.

Haft er eftir menntamálaráðherra í fréttinni að skólarnir fimm hafi fengið fé umfram það sem þeir áttu rétt á og það hlaupi á milljónum. “Hún segir ekki búið að ákveða hvort skólarnir þurfi að endurgreiða ofgreidd framlög”, segir þar.

Það skrítna við þetta mál er að rekstrarfé Iðnskólans í Reykjavík var um 1,2 milljarðar á síðasta ári og sú fjárhæð sem deilt er um nemur sem svarar 0,4% af þeirri upphæð; um fjórum milljónum. Þar fyrir utan var rekstur skólans undir fjárveitingum sem nemur liðlega prósenti. Skólinn fór sem sagt ekki umfram fjárveitingar.

Aðferðin við talningu á nemendum framhaldsskóla, ekki síst verkmenntaskóla, hefur lengi verið deiluefni milli skólanna og ráðuneytisins. En nú er eins og embættismennirnir hafi búið sér til flækju sem þeir eiga erfitt með að losa sig úr.


Friðum Vatnsmýrina fyrir arkitektum og lóðabröskurum

Æ, hvað ég varð feginn þegar einn af ráðherrum Samfylkingarinnar lýsti því yfir um daginn að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Þar vil ég hafa hann og hef alltaf viljað.

Einkum og sér í lagi hafa mér hugnast illa þau rök sem gjarnan er haldið á lofti af þeim sem vilja völlinn burt að á vallarsvæðinu séu svo verðmætar lóðir og því nauðsynlegt að byggja þar. Að flytja flugvöllinn til hagsbóta fyrir lóðabraskara er ekki sú pólitík sem ég aðhyllist.

Ég er að vísu búinn að sætta mig við að einhvern tíma í framtíðinni verði flugvöllurinn kannski fluttur. Þá tek ég því auðvitað, með æðruleysi og fýlukasti. Og geri þá kröfu að hann fari sem styst; Hólmsheiðin gæti verið góð þótt þá þurfi að vísu að flytja væntanlegt fangelsi sem þar átti að reisa.

En fari flugvöllurinn er nauðsynlegt að nýta svæðið til bætts mannlífs í Reykjavík. Þarna er mikið flæmi og hægt að gera þar stórkostlega útivistarparadís fyrir borgarbúa (og raunar landsmenn alla) í skipulagslegum tengslum við það mennta- og fræðaumhverfi sem þar er þegar risið. Umfram allt má ekki setja þennan demant í hendurnar á fólki sem sér bara peninga þar sem aðrir sjá fegurð og mannlíf.

Undanfarið hefur ekki mátt sjást svo lófastór blettur í Reykjavík að ekki sé innan tíðar búið að troða niður á hann arkitektúrísku hryðjuverki upp á 15+ hæðir, allt með það markmið að leiðarljósi að lóðanýtingin sé sem mest og gróðinn því sem mestur í vasa lóðareigenda og byggingaverktaka.

Þessi spor hræða. Þess vegna eigum við að friða Vatnsmýrina fyrir arkitektum og lóðabröskurum.

 


Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband