Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
30.4.2008 | 17:22
Vegna ritstjórnargreinar; þróunaraðstoð eða „útrás“?
En það er annað í viðtalinu við Einar sem er byggt á miklum misskilningi og höfundur ritstjórnargreinarinnar tekur undir þann misskilning og heldur honum á lofti. Það er þegar Einar ber saman þróunaraðstoð Dana og Svía. Danir noti þróunaraðstoð til að hygla dönskum fyrirtækjum og aðstoða þau við að koma sér upp mörkuðum. Svíar á hinn bóginn veiti þróunaraðstoð án skilyrða og vinni á forsendum heimamanna. Íslendingar og fleiri þjóðir geti lært af Svíum að greina á milli þróunaaðstoðar og viðskipta.
Þarna fara bæði Einar og höfundur ritstjórnargreinar þriðjudagsins í Mogganum með fleipur, sem ugglaust á sér skýringu í vanþekkingu, þótt iðulega hafi verið hamrað á þessu undanfarið í fjölmiðlum. Íslendingar hafa markað sér skíra stefnu í þróunarsamvinnu; hún er gerð á forsendum heimamanna. Við höfum notað sænsku aðferðina um langt árabil. Danir notuðu þá aðferð líka þar til fyrir nokkrum árum, en breyttu þá um stefnu.
30.4.2008 | 12:58
Merkisárið 2008
Ég var að átta mig á því að árið í ár er merkisár, hvorki meira né minna. Það eru fimmtíu ár síðan fyrsti árgangurinn var útskrifaður í Gagnfræðaskólanum við Réttarholtsveg, Gaggó Rétt. Þar með eru líka fimmtíu ár síðan ég hóf sjómennskuferil (fyrsta brottför 16. maí 1958) sem með tímanum átti að leiða til skipstjórnar á togara; þar með einnig fimmtíu ár síðan ég byrjaði að reykja, því í þann tíð reyktu togarajaxlar, filterlausan Camel vel að merkja. Fimmtíu ár líka frá því ég smakkaði áfengi í fyrsta sinn, en ég var óttalegur eymingi í því fyrstu árin; það breyttist og svo breyttist það aftur til betra horfs. Og í ár, 24. apríl meira að segja, voru tuttugu ár síðan ég hætti að reykja; það var í 60 ára afmælisveislunni hans Erlings Viggóssonar sem ég var tóbakslaus í fyrsta sinn í þrjátíu ár og hefur ekki langa í tóbak allar götur síðan. Alveg satt.
Ég ætla ekki að halda upp á reykingarnar eða áfengið eða sjómennskuna sem varð hvort eð er endaslepp vegna bágrar sjónar (það var bannað að nota gleraugu ef maður ætlaði í Stýrimannaskólann; þar fór það), en ég ætla að halda upp á útskriftina úr Gaggó Rétt með skólafélögunum og ég ætla að hjálpa félaga Erlingi Viggóssyni að halda upp á áttræðisafmælið 1. maí. Þar verður örugglega gaman og fullt af fólki sem maður hefur ekki séð árum saman.
Hljómar þetta ekki soldið aldrað?
30.4.2008 | 12:43
Fáránleikinn á LSH
Það er búið að vera soldið dapurlegt að fylgjast með þróuninni á LSH, þar sem skurðhjúkrunarfræðingar eru að ganga á dyr. Og næstum fyndið að heyra forstjórana vonast til þess að hjúkrunarfræðingarnir sýni þá samfélagslegu ábyrgð að koma til starfa verði kallað á þá í neyðartilfellum. Í sama knérunn var hoggið þegar vika eða svo var til þess að hjúkrunarfræðingar gengju á dyr; vísað var til ábyrgðartilfinningar hjúkrunarfræðinga gagnvart sjúklingum.
En hvað um ábyrgðartilfinningu stjórnar spítalans? Eða heilbrigðisráðuneytisins? Bera þeir aðilar enga ábyrgð á því ástandi sem komið er upp?
Hefði til dæmis ekki verið eðlilegra ferli að kynna breytingar á vaktakerfi fyrir starfsfólkinu með góðum fyrirvara og reyna um leið að gera samning við hjúkrunarfræðinga um að bæta þeim upp þann tekjumissi sem minnkandi aukavinna hefur í för með sér? Um það snýst jú málið. Öll viljum við stytta vinnutímann, sem á Íslandi hefur jaðrað við brjálsemi, en það verður auðvitað að gerast í takt við hækkað dagvinnukaup. Nógu er nú erfitt að lifa af kaupinu sínu hér á landi með aukavinnunni.
Allt þetta mál er kennsludæmi um það hvernig alls ekki á að vinna að breytingum.
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Vefsvæðið mitt Flest það sem máli skiptir um mig og mína
- Samfylkingin Flokkurinn sem máli skiptir
- Kennarasamband Íslands Heildarsamtök kennara
- Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins Vinnustaðurinn minn
- Upplýsingatækniskólinn Merkasti skólinn i Tækniskólanum
- Þróunarsamvinnustofnun Starfsemi Íslendinga með þróunarlöndum