Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Strætó

Strætó er rekstrarlegt furðuverk, þar sem reynt er að láta opinberar samgöngur standa undir sér með því að gera þjónustuna sífellt dýrari og sífellt lélegri. Eiginlega má segja að Strætó hafi - eins og reyndar Íslandspóstur - unnið að því með festu og einurð að gera þjónustuna svo lélega að enginn vilji nota hana. Og tekist það.

Í Osló brugðust menn öðru vísi við. Þar stóðu borgaryfirvöld frammi fyrir skelfilegum taprekstri strætisvagna og jarðlesta (almannasamgangna sumsé) vegna sífellt færri farþega. Hvað gerðu þau? Þau gerðu tilraun. Fjölguðu ferðum og lækkuðu fargjöld. Reiknuðu út að það tæki svo sem fjögur fimm ár aðkomast á núllið ef tilraunin tækist. Ári síðar var þegar orðinn lítilsháttar arður af kerfinu. Þetta ættu kannski þeir sem reka Strætó að taka til fyrirmyndar. Bæta þjónustuna í stað þess að gera fyrirtækið sífellt ónothæfara fyrir almenning. Ég er viss um að í kreppu með gengi og bensinverð í hæstu hæðum myndu fleiri ferðast með almenningsvögnum ef þeir væru raunverulegir valkostir.


Stytting skóla - launalaust leyfi

"Ég leyfi mér að segja að það er ekkert víst að stytting sem þessu nemur (10 dagar; innskot HMH) sé skaðleg fyrir nemendur," segir bæjarstjórinn á Ísafirði í Fréttablaðinu í dag. Svona eiga menn auðvitað ekki að tala. "Það er ekki víst" eru engin rök í svona máli; hér eiga nemendurnir að njóta vafans. Það er nefnilega rétt sem fram kemur hjá Eiríki Jónssyni, formanni Kennarasambands Íslands, í sömu frétt, að "þetta er inngrip í líf barna og unglinga og þeirra tækifæri kemur aldrei aftur". Sú menntun sem felld er niður kemur ekki inn í líf þessara nemenda síðar; þeir koma úr skólanum með minni menntun sem niðurfellingunni nemur. Málið er ekki flóknara en það.

Halldór bæjarstjóri er enn í þessu viðtali við það heygarðshorn að starfsmönnum sveitarfélaga verði veitt launalaust leyfi í 10 daga gegn 5% launalækkun. Þetta mun vera svokölluð Akureyrarleið, þótt Akureyringar segi hana komna frá Ísafirði. Ekki liggur fyrir að þeir sem halda þessari leið á lofti hafi kynnt sér allar hliðar málsins. Hver eru t.d. réttindi þeirra sem slasast eða veikjast í launalausu leyfi? Það er þannig að ýmis félagsleg réttindi manna eru bundin starfi þeirra og ef þeir fara í launalaust leyfi rofnar skylda atvinnurekandans; starfsmaðurinn er ekki á launum og nýtur þar af leiðandi ekki kjarabundinnar verndar.


Heija Norge og til hamingju Ísland.

Það er ekki hægt annað en að vera stoltur af henni Jóhönnu Guðrúnu og íslenska genginu öllu í Evrósýninni áðan. Annað sætið á eftir Norðmönnum með skemmtilegt lag og skelfilegan texta. Gaman að vera hálfnorskur undir svona kringumstæðum og vera eiginlega bæði í fyrsta og öðru sæti. En mesta hrósið fá eiginlega Rússarnir; hvílíkur brilljans í sjóbíssnis sem þarna kom fram. Bæði í kvöld og í undanrásunum. 

Til hvers heldur þessir maður að hann sé á Alþingi?

Það er í sjálfu sér ekki margt gáfulegt sem komið hefur frá formanni Framsóknarflokksins eftir að hann var kjörinn á þing. Hann virðist a.m.k. ekki enn vera búinn að átta sig á því til hvers Alþingi eiginlega er. Það skín úr þeirri vandlætingu sem frá honum streymir, þegar hann hneykslast á því að leggja eigi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að Ísland sæki um aðild að ESB og fari í framhaldinu í samningaviðræður við sambandið. Þetta heitir í munni Sigmundar Davíðs að ríkisstjórnin sé að velta ákvörðuninni í málinu yfir á stjórnarandstöðuna! Svona rugl sýnir skrítinn skilning á þingræðinu. Til hvers í fjáranum heldur þessi maður að hann hafi verið kjörinn á þing? Og til hvers heldur hann að Alþingi sé?

Þingmenn eru kjörnir til þess að taka ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar; þeir eru fulltrúar þjóðarinnar og eiga að vinna fyrir hana. Þess vegna er bæði sjálfsagt og eðlilegt að þeir taki þátt í svo mikilvægri ákvörðun sem þeirri að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það er kannski framsóknarlegt en  ekki karlmannlegt að kveinka sér undan því.


ESB = Sovétríkin?!

Andstæðingar Evrópusambandsaðildar fara nú hamförum í blaðagreinum og bloggfærslum. Það er eins og með annað; sumar röksemdirnar byggjast á eðllegri tortryggni, aðrar á rakalausu ofstæku. Í gær hitti ég, í Kringlunni, gamlan vin frá því á árunum fyrir Samfylkingu og VG; við voru flokksbræður í Alþýðubandalaginu, meira að segja í sama arminum. Svo fór hann í VG og ég í Samfó. "Aldrei hefði ég greitt atkvæði með inngöngu í Sovétríkin," sagði þessi gamli félagi, "og mun aldrei greiða atkvæði með inngöngu í ESB." Sagðist ekki sjá þar mikinn mun á. Kannski stigsmun, en ekki eðlis.

Hvernig er hægt að rökræða við svona ofstæki? Halda menn virkilega að Eystrsaltsríkin hafi átt þá ósk heitasta að ganga í ný Sovétríki eftir að þau öðluðust sjálfstæði? Eða að gömlu austantjaldsríkin þrái það heitast að fá glata sjálfstæði sínu á nýjan leik í nýju Sovéti? Ætla menn að halda því fram að íbúar þessara landa séu upp til hópa aular sem ekki séu alveg að fatta þá frelsissviptingu og sjálfstæðistap sem þeir eru að kjósa yfir sig, þegar þeir kjósa sig inn í ESB nýsloppnir úr austantjaldsklafanum?

Það er eðlilegt að menn séu ósammála um svo veigamikið mál, en svona málflutningur er bara ekki boðlegur.


Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband