30.4.2008 | 12:43
Fáránleikinn á LSH
Það er búið að vera soldið dapurlegt að fylgjast með þróuninni á LSH, þar sem skurðhjúkrunarfræðingar eru að ganga á dyr. Og næstum fyndið að heyra forstjórana vonast til þess að hjúkrunarfræðingarnir sýni þá samfélagslegu ábyrgð að koma til starfa verði kallað á þá í neyðartilfellum. Í sama knérunn var hoggið þegar vika eða svo var til þess að hjúkrunarfræðingar gengju á dyr; vísað var til ábyrgðartilfinningar hjúkrunarfræðinga gagnvart sjúklingum.
En hvað um ábyrgðartilfinningu stjórnar spítalans? Eða heilbrigðisráðuneytisins? Bera þeir aðilar enga ábyrgð á því ástandi sem komið er upp?
Hefði til dæmis ekki verið eðlilegra ferli að kynna breytingar á vaktakerfi fyrir starfsfólkinu með góðum fyrirvara og reyna um leið að gera samning við hjúkrunarfræðinga um að bæta þeim upp þann tekjumissi sem minnkandi aukavinna hefur í för með sér? Um það snýst jú málið. Öll viljum við stytta vinnutímann, sem á Íslandi hefur jaðrað við brjálsemi, en það verður auðvitað að gerast í takt við hækkað dagvinnukaup. Nógu er nú erfitt að lifa af kaupinu sínu hér á landi með aukavinnunni.
Allt þetta mál er kennsludæmi um það hvernig alls ekki á að vinna að breytingum.
17.3.2008 | 12:25
Skrítin myndanotkun í útkallsbók
Fékk mér bók á bókasafninu um daginn, eina úr útkalls-bókaflokkinum. Þessi fjallaði um ásiglingu breskrar freygátu á varðskipið Tý í þorskastríðinu 1975 (minnir mig; búinn að skila bókinni og þá fara hlutir eins og ártöl fljótlega fyrir bí). En það var dálítið skrítin upplifun að lesa þessa bók. Burtséð frá því að þetta hefði verið flott efni fyrir dágóða tímaritsgrein og að það þurfti endalausar endurtekningar á sömu atriðunum upp aftur og aftur og aftur til að koma þessu í bókarlengd (plús mjög skrítnar mannamyndabirtingar á öftustu síðunum), þá sá ég að stór hluti myndanna í bókinni voru frá mér, birtar án míns samþykkis, - án þess ég væri spurður, ef út í það er farið. Ég sumsé fór í þriggja vikna túr með Tý í þessu þorskastríði, fyrir Þjóðviljann sálaða, og átti eftir það mikið filmusafn og mynda- af árekstrum, togvíraklippingum, togurum á veiðum og herskipum að reyna að flækjast fyrir varðskipunum, daglegu lífi um borð o.s.frv. Þetta filmusafn lánaði ég Sveini Sæmundssyni, höfundi ævisögu Guðmundar Kærnested skipherra, þar sem mikið af myndunum birtist; Sveinn skilaði þessu öllu til mín eftir notkun. Höfundur útkalls-flokksins virðist hafa skannað þessar myndir úr bókinni og birtir þær í sinni bók án þess að tala við kóng eða prest. Eru þetta ekki eiginlega dálítið dónaleg vinnubrögð.
(Vil geta þess hér innan sviga að í útkallsbókinni er frásögn Óla Tynes, þá blaðamanns á DV, af ástandinu um borð í bresku freygátunni sem sigldi á Tý, hreint ómetanleg heimild.)
17.3.2008 | 09:18
Eðlilegt vinnuumhverfi kennara?
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2008 | 14:09
Skemmtileg hugmynd hjá Stefáni Jóni
Þetta er sniðug hugmynd og full ástæða til að taka hana alvarlega, ekki síst þar sem Samfó og vinstrigræn hafa tekið um það ákvörðun að splæsa sig saman í núverandi ástandi og ljá ekki máls á því við Sjálfstæðismenn að skera þá niður úr þeirri snöru sem þeir hafa sjálfviljugir sett um hálsinn á sér. Nú er boltinn í túninu hjá Sjöllunum og verður gaman að sjá hvernig þeir taka þessari hugmynd.
9.2.2008 | 17:52
Er laus staða sem krefst ekki minnis?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2008 | 14:26
Áminntir skólameistarar
Ég sá í Fréttablaðinu í dag að skólameistarinn okkar í Iðnskólanum í Reykjavík hefur verið áminntur formlega ásamt öðrum skólameistara, auk þess sem þrír aðrir hafa fengið tiltal fyrir að telja vitlaust þá nemendur sem stundað hafa nám í skólanum og verða sér þannig út um meiri pening úr ríkissjóði en efni stóðu til. Meira að segja var því haldið fram í fréttinni að framhaldsskólarnir væru reknir fyrir peninga úr sameiginlegri púlju og með því að taka of mikið úr þessum sameiginlega sjóði væru þessir skólameistarar að hafa fé af öðrum skólum. Þetta síðasta er auðvitað eins og hver önnur þvæla; hver skóli fær ákveðna upphæð á fjárlögum og hún lækkar ekki þótt einhverjir fari yfir fjárveitingu.
Haft er eftir menntamálaráðherra í fréttinni að skólarnir fimm hafi fengið fé umfram það sem þeir áttu rétt á og það hlaupi á milljónum. Hún segir ekki búið að ákveða hvort skólarnir þurfi að endurgreiða ofgreidd framlög, segir þar.
Það skrítna við þetta mál er að rekstrarfé Iðnskólans í Reykjavík var um 1,2 milljarðar á síðasta ári og sú fjárhæð sem deilt er um nemur sem svarar 0,4% af þeirri upphæð; um fjórum milljónum. Þar fyrir utan var rekstur skólans undir fjárveitingum sem nemur liðlega prósenti. Skólinn fór sem sagt ekki umfram fjárveitingar.
Aðferðin við talningu á nemendum framhaldsskóla, ekki síst verkmenntaskóla, hefur lengi verið deiluefni milli skólanna og ráðuneytisins. En nú er eins og embættismennirnir hafi búið sér til flækju sem þeir eiga erfitt með að losa sig úr.
31.1.2008 | 14:23
Friðum Vatnsmýrina fyrir arkitektum og lóðabröskurum
Æ, hvað ég varð feginn þegar einn af ráðherrum Samfylkingarinnar lýsti því yfir um daginn að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Þar vil ég hafa hann og hef alltaf viljað.
Einkum og sér í lagi hafa mér hugnast illa þau rök sem gjarnan er haldið á lofti af þeim sem vilja völlinn burt að á vallarsvæðinu séu svo verðmætar lóðir og því nauðsynlegt að byggja þar. Að flytja flugvöllinn til hagsbóta fyrir lóðabraskara er ekki sú pólitík sem ég aðhyllist.
Ég er að vísu búinn að sætta mig við að einhvern tíma í framtíðinni verði flugvöllurinn kannski fluttur. Þá tek ég því auðvitað, með æðruleysi og fýlukasti. Og geri þá kröfu að hann fari sem styst; Hólmsheiðin gæti verið góð þótt þá þurfi að vísu að flytja væntanlegt fangelsi sem þar átti að reisa.
En fari flugvöllurinn er nauðsynlegt að nýta svæðið til bætts mannlífs í Reykjavík. Þarna er mikið flæmi og hægt að gera þar stórkostlega útivistarparadís fyrir borgarbúa (og raunar landsmenn alla) í skipulagslegum tengslum við það mennta- og fræðaumhverfi sem þar er þegar risið. Umfram allt má ekki setja þennan demant í hendurnar á fólki sem sér bara peninga þar sem aðrir sjá fegurð og mannlíf.
Undanfarið hefur ekki mátt sjást svo lófastór blettur í Reykjavík að ekki sé innan tíðar búið að troða niður á hann arkitektúrísku hryðjuverki upp á 15+ hæðir, allt með það markmið að leiðarljósi að lóðanýtingin sé sem mest og gróðinn því sem mestur í vasa lóðareigenda og byggingaverktaka.
Þessi spor hræða. Þess vegna eigum við að friða Vatnsmýrina fyrir arkitektum og lóðabröskurum.
21.12.2007 | 18:35
Reynir Traustason nær nýrri lægð
Það var óneitanlega fræðandi að lesa leiðara DV sl. fimmtudag (20. des.), þar sem hann fjallar um Ríkisútvarpið. Oft hafa talsmenn hinna svokölluðu frjálsu fjölmiðla tekið djúpt í árina þegar þeir fjalla um þá skelfilegu stefnu RÚV að halda uppi dagskrá sem áhorfendur kunna að meta og vilja horfa á. En Reynir nær hér nýjum hæðum (eða lægðum; eftir því hvernig á það er litið) í froðufellandi geðvonskukasti. Stór hluti leiðarans er skammir út í Sjálfstæðisflokkinn, sem ég get ekki sagt að ég taki mjög nærri mér. En það er þessi lýsing á dagskrá sjónvarps RÚV, sem eiginlega gerir mann kjaftstopp: "Sápan lekur af flestum dagskrárliðum og sópranósiðferði ræður. Í dag er staðan sú að allt eins væri réttlætanlegt að ríkið stæði að útgáfu Séð og heyrt sem gerir út á skemmtifréttir en á líf sitt undir hinum frjálsa markaði. Ríkisútvarpið er í dag skækja Sjálfstæðisflokksins sem stefnulaus ráfar um lendur íslenskrar pólitíkur og veit ekki muninn á einkarekstri og opinberum. . . ."
Og þetta kemur frá ritstjóra DV.
21.12.2007 | 18:35
Verðmæt reynsla hjá Birni Bjarnasyni
12.12.2007 | 14:24
Palestína og alþjóðasamfélagið
Auðvitað var það rétt sem flestir vissu en kunnu ekki við að segja til að skemma ekki veika von; Annapolis-fundurinn var aldrei annað en yfirvarp. Þar átti aðeins að vefja enn einn þráðinn í þann blekkingarvef sem ofinn hefur verið um málefni Palestínu og Ísraels með dyggri aðstoð svokallaðs alþjóðasamfélags.
Það er reyndar merkilegt hvað þetta "alþjóðasamfélag" missir bæði sjón og heyrn þegar málefni Palestínu og íbúa hennar komast í umræðuna. Það hefur miklar áhyggjur af íbúum Dalfúrhéraðs, stórar áhyggjur af því hvort íbúar Kósóvó lýsa yfir sjálfstæði, líður illa yfir mannréttindabrotum og hugsanlegum kosningasvikum í Rússlandi og geta varla sofið vegna áhyggna af klerkastjórninni í Íran og herforingjastjórninni í Mjanmar. En fjöldamorð á íbúum Palestínu og markviss eyðilegging á tilverugrundvelli þeirra er látin afskiptalaus.
Það er meira að segja komið í tísku hjá fína og fræga fólkinu að fara til Darfúr og láta ljósmynda sig hjá illa förnum fórnarlömbum hungurs og ofbeldis. Þannig er vakin athygli á því skelfilega ástandi sem þar ríkir. Og full ástæða til.
Nú var ísraelski herinn að ráðast inn á Gazasvæðið með tugum skriðdreka og jarðýtum, tveimur dögum fyrir skipulagðan viðræðufund forystumanna Palestínu og Ísraels. Inn á svæði sem fyrir þessa innrás var eitt skelfilegasta svæði heims til að búa á. Skilmerkilegar frásagnir Sveins Rúnars Haukssonar læknis frá heimsókn til Gaza í nóvember segja hræðilega sögu um markvissa rústun samfélags fólks sem unnið hefur sér það eitt til saka að vera til. Almennir borgarar eru myrtir, heimili lögð í rústir, skolpræsi eyðilögð, akrar eyðilagðir eða þeir innlimaðir í Ísrael með aðskilnaðarmúrnum alræmda, vatnskerfi eyðilögð. Og "alþjóðasamfélaginu" þykir þetta auðvitað afskaplega leiðinlegt en yppir öxlum og gerir ekkert til að stöðva þetta framferði. Og fína og fræga fólkið fer örugglega ekki til Palestínu til að láta taka myndir af sér með íbúum hennar. Það gæti komið sér illa fyrir það heima fyrir.
Ráðamenn í Ísrael vilja ekki frið og þeirra helsta verkefni er að koma í veg fyrir að viðræður geti borið þann árangur að Palestínuríki verði stofnað til hliðar við Ísrael. Og kvartettinn illræmdi er verri en ekkert með strengjabrúðuna Tony Blair í einhvers konar framkvæmdastjórahlutverki
Á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir ári kom til tals í umræðuhópi um alþjóðmál hvort hægt væri að koma upp samskonar "boycott"-herferð gagnvart Ísrael og gert var gagnvart apartheitstjórninni í Suður-Afríku á sínum tíma. Hætta að bjóða ísraelskum íþróttamönnum í keppnir, útiloka þá frá þátttöku í Eurovision (sem út af fyrir sig er furðuleg; ekki er Ísrael í Evrópu), kaupa ekki varning frá Ísrael, meina ísraelskum námsmönnum námsvist í háskólum o.s.frv., o.s.frv.
Þetta finnst mér vera fín hugmynd; væri hægt að hleypa af stað félagsskap sem hefði þetta að markmiði?
Frekari upplýsingar má finna á www.palestina.is. Þar er um auðugan garð að gresja og margar tengingar á vefi erlendis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Vefsvæðið mitt Flest það sem máli skiptir um mig og mína
- Samfylkingin Flokkurinn sem máli skiptir
- Kennarasamband Íslands Heildarsamtök kennara
- Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins Vinnustaðurinn minn
- Upplýsingatækniskólinn Merkasti skólinn i Tækniskólanum
- Þróunarsamvinnustofnun Starfsemi Íslendinga með þróunarlöndum
Af mbl.is
Fólk
- David Walliams þurfti að bæta öðrum viðburði við
- Sagður eiga í ástarsambandi við mun yngri konu
- Sjónvarpsverðlaun afhent í fyrsta sinn
- Herra Hnetusmjör fagnar átta árum edrú
- Katrín prinsessa laumaðist á fund í Windsor-kastala
- Endurgerði þekkt kvikmyndaveggspjald buxnalaus
- Liam Payne borinn til grafar
- Elton John mætti allnokkrum kílóum léttari
- Fyrrverandi Playboy-kanína fær ekki aðgang að stefnumótaforriti
- Jarðarför Liams Payne í dag