Leita í fréttum mbl.is

Sri Lanka - falleg eyja í hernaðarástandi

Það var - og er enn - ansi skrítið ástandið í Colombo, höfuðborg Sri Lanka í síðustu viku, þegar ég var þar ásamt Sighvati Björgvinssyni framkvæmdastjóra og Gunnari Salvarssyni upplýsingafulltrúa Þróunarsamvinnustofnunar (ÞSSÍ/Iceida). Það er hernaðarástand á eyjunni og beðið eftir hefndaraðgerðum Tamíla eftir að nokkrir úr röðum forystumanna þeirra voru felldir í loftárás fyrir nokkrum vikum. Á öllum götum voru hermenn og lögreglumenn, gráir fyrir járnum, og vegatálmanir, þar sem leitað var á grunsamlegu fólki og í farartækjum. Við þremenningarnir erum ekki sérlega tamílalegir útlits og þá ekki heldur þeir Árni Helgason stöðvarstjóri og Gunnar Þórðarson verkefnisstjóri ÞSSÍ á eyjunni. Við vorum raunar oftast í bíl merktum Iceida og því ekki stöðvaðir við vegatálma heldur veifað áfram.

Þann 27. nóvember er hetjudagur Tamíla og menn búast allteins við að þeir grípi til hefndaraðgerða til að geta stært sig af þeim við það tækifæri. Hugga sig þó við að Tamílarnir hafa yfirleitt ekki ráðist á skotmörk sem valdið geta almenningi skaða heldur svokölluð "soft targets", sem valda skaða á "infrastrúktúrnum"; reyna kannski að taka ráðherra með í leiðinni.

Hvað sem vegatálmum leið og hermönnum og lögreglumönnum þá var umferðarmenningin kannski forvitnilegust, eða kannski skorturinn á sýnilegum umferðarreglum. Ég var eiginlega mest hissa á að sjá hvergi dældaðan bíl því umferðin í Colombo er svo fullkomlega kaótísk að undrun sætir. Ég sá t.d. hvergi merki um hámarkshraða, en bílstjórnarnir voru þó duglegir við að gefa stefnuljós þegar þeir létu vaða fyrir aðra bíla og flautan var óspart notuð.

En það er bannað að að taka myndir þar sem hernaðarástand ríkir; ekki má taka mynd þar sem hermenn eða lögreglumenn voru á ferli og raunar alls ekki af neinu; eitt sinn er ég var í göngutúr eftir einni götunni tók ég upp myndavélina og mundaði hana í átt að gilskorningi sem þarna var, með yfirgrónum járnbrautarteinum og Indlandshafið í baksýn, flott mótív. Þá var klappað á öxlina á mér og þar var srilanskur hermaður með vélbyssu um öxl og kurteislegt bros á vör. "Forbidden," sagði hann. "En þetta er ekki einu sinni militarískt myndefni," mótmælti ég. "Sorry, forbidden," sagði dátinn kurteislega og brosti enn. Svo ég vitaskuld hætti við myndatökuna.

Þetta er skrítið andrúmsloft og blessunarlega langt frá okkar íslenska veruleika.

 

Miklir fundir - falleg eyja

Svona ferðir eru vinnuferðir í orðsins fyllstu. Við sátum fundi með sjávarútvegsráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og gæðarannsóknarstofnun í fiskimálum, auk grasrótarsamtaka sem Iceida er í samvinnu við í uppbyggingu í fiskimannaþorpum. Þar var meðal annars rætt um mögulega þátttöku ÞSSÍ í félagslegri uppbyggingu í mun fleiri fiskimannaþorpum á sunnan- og austanverðri eynni. Afar áhugaverð verkefni.

Við fórum og skoðuðum tvö þessara þorpa og þá aðstöðu sem ÞSSÍ  er að aðstoða heimamenn við að  koma upp. Þá kynntumst við í fyrsta lagi þeirri ótrúlegu náttúrufegurð sem þessi litla eyja hefur yfir að ráða og eyjaskeggjar eru sér fyllilega meðvitaðir um (Sri Lanka = Paradís heimsins). Í öðru lagi fengum við að reyna vegakerfi sem annar í raun ekki þeirri umferð sem um það fer; Árni sagði okkur að gera mætti ráð fyrir að komast 30 km vegalengd til jafnaðar á klukkutíma. Í þriðja lagi kynntumst við því sama þarna og raunin hefur verið í þeim Afríkulöndum sem ég hef heimsótt í sömu erindagjörðum; mikil aðdáun á skilvirkni í vinnubrögðum ÞSSÍ og þakklæti fyrir það starf sem stofnunin vinnur, í samstarfi við heimamenn. Þarna ræður örugglega ekki síst sú staðreynd að Þróunarsamvinnustofnun vinnur í samvinnu við heimamenn að verkefnum sem þeir velja og þurfa á að halda, á forsendum heimamanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband