Leita í fréttum mbl.is

Palestína og alþjóðasamfélagið

Auðvitað var það rétt sem flestir vissu en kunnu ekki við að segja til að skemma ekki veika von; Annapolis-fundurinn var aldrei annað en yfirvarp. Þar átti aðeins að vefja enn einn þráðinn í þann blekkingarvef sem ofinn hefur verið um málefni Palestínu og Ísraels með dyggri aðstoð svokallaðs alþjóðasamfélags.

Það er reyndar merkilegt hvað þetta "alþjóðasamfélag" missir bæði sjón og heyrn þegar málefni Palestínu og íbúa hennar komast í umræðuna. Það hefur miklar áhyggjur af íbúum Dalfúrhéraðs, stórar áhyggjur af því hvort íbúar Kósóvó lýsa yfir sjálfstæði, líður illa yfir mannréttindabrotum og hugsanlegum kosningasvikum í Rússlandi og geta varla sofið vegna áhyggna af klerkastjórninni í Íran og herforingjastjórninni í Mjanmar. En fjöldamorð á íbúum Palestínu og markviss eyðilegging á tilverugrundvelli þeirra er látin afskiptalaus.

Það er meira að segja komið í tísku hjá fína og fræga fólkinu að fara til Darfúr og láta ljósmynda sig hjá illa förnum fórnarlömbum hungurs og ofbeldis. Þannig er vakin athygli á því skelfilega ástandi sem þar ríkir. Og full ástæða til.

Nú var ísraelski herinn að ráðast inn á Gazasvæðið með tugum skriðdreka og jarðýtum, tveimur dögum fyrir skipulagðan viðræðufund forystumanna Palestínu og Ísraels. Inn á svæði sem fyrir þessa innrás var eitt skelfilegasta svæði heims til að búa á. Skilmerkilegar frásagnir Sveins Rúnars Haukssonar læknis frá heimsókn til Gaza í nóvember segja hræðilega sögu um markvissa rústun samfélags fólks sem unnið hefur sér það eitt til saka að vera til. Almennir borgarar eru myrtir, heimili lögð í rústir, skolpræsi eyðilögð, akrar eyðilagðir eða þeir innlimaðir í Ísrael með aðskilnaðarmúrnum alræmda, vatnskerfi eyðilögð. Og "alþjóðasamfélaginu" þykir þetta auðvitað afskaplega leiðinlegt en yppir öxlum og gerir ekkert til að stöðva þetta framferði. Og fína og fræga fólkið fer örugglega ekki til Palestínu til að láta taka myndir af sér með íbúum hennar. Það gæti komið sér illa fyrir það heima fyrir.

Ráðamenn í Ísrael vilja ekki frið og þeirra helsta verkefni er að koma í veg fyrir að viðræður geti borið þann árangur að Palestínuríki verði stofnað til hliðar við Ísrael. Og kvartettinn illræmdi er verri en ekkert með strengjabrúðuna Tony Blair í einhvers konar framkvæmdastjórahlutverki

Á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir ári kom til tals í umræðuhópi um alþjóðmál hvort hægt væri að koma upp samskonar "boycott"-herferð gagnvart Ísrael og gert var gagnvart apartheitstjórninni í Suður-Afríku á sínum tíma. Hætta að bjóða ísraelskum íþróttamönnum í keppnir, útiloka þá frá þátttöku í Eurovision (sem út af fyrir sig er furðuleg; ekki er Ísrael í Evrópu), kaupa ekki varning frá Ísrael, meina ísraelskum námsmönnum námsvist í háskólum o.s.frv., o.s.frv.

Þetta finnst mér vera fín hugmynd; væri hægt að hleypa af stað félagsskap sem hefði þetta að markmiði?

Frekari upplýsingar má finna á www.palestina.is. Þar er um auðugan garð að gresja og margar tengingar á vefi erlendis. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband