23.1.2009 | 14:29
Óska Geir gæfu og gengis
Þetta er hálfsúrrealískur dagur, súrrealískir tímar kannski. Yfirlýsing Geirs Haarde um illkynja æxli í vélinda er mikið áfall, ekki aðeins fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar sem höggið hlýtur þó að vera þyngst, heldur ekki síður fyrir landsmenn. Hversu ósammála sem maður er Geir Haarde í stjórnmálum þá eru svona fréttir auðvitað ekki það sem maður óskar að fá. Ég óska Geir svo sannarlega gæfu og gengis í baráttu hans við sjúkdóminn og vona að hann sigrist á veikindunum.
22.1.2009 | 08:04
Magnaður fundur
"Það á að tilkynna Geirt það strax í fyrramálið að stjórnarsamstarfinu sé lokið, mynda nýjan þingmeirihluta til að vinna fram að kosningum og kjósa ekki síðar en í maí." Þetta er nokkurn veginn sú afstaða sem fundur Samfylkingarinnar í Reykjavík tók í gærkvöldi, á mögnuðum fundi og fjölmennum. Ég held ég hafi ekki verið á magnaðri fundi á allri minni fundasæknu ævi. Þjóðleikhúskjallarinn troðfullur og hrópandi ungmenni neðan af Austurvelli meðan beðið var eftir að fundurinn hæfist. Það var eftirtektarvert að ungmennin (því þetta voru eintóm unglingar á menntaskólaaldri) þögnuðu og fóru flest út fyrir þegar fundurinn hófst. Nokkur urðu eftir og tóku þátt í klappi fundarmanna undir ræðum.
Enginn hörgull var á ræðumönnum í almennum umræðum eftir að Lúðvík og Mörður höfðu lokið fínum framsöguræðum. Allir á sama máli; ríkisstjórnin missti í raun umboðið í byrjun október; við eigum að rjúfa stjórnarsamstarfið eigi síðar en strax og kjósa ekki seinna en í byrjun maí. Jafnvel fyrr, sögðu sumir.
Þessi fundur undirstrikaði fyrir mér þá óánægju sem er undirliggjandi í flokknum. Ekki aðeins í Reykjavík heldur út um land; Kópavogsfélagið samþykkti stuðning við ályktun fundarins í þá veru strax í gærkvöldi og ég er viss um að slíkar yfirlýsingar eiga eftir að verða fleiri.
Það var svo karnivalstemning úti fyrir Þjóðleikhúsinu þegar fundinum lauk; rauðir logar brunnu og rauðir fánar bærðust. Trommur börðu taktinn þegar hópurinn söng "Áfram Ísland".
Frábær fundur og niðurstaða við hæfi.
21.1.2009 | 10:27
Þetta gengur ekki lengur; kosningar í maí!
Ég er ekki mikið fyrir samsæriskenningar; finnst þær ansi oft byggjast á einhvers konar ofsóknarbrjálæði. Ég ber líka virðingu fyrir þeim sem ekki vilja ganga frá óunnu verki meðan allt er að fara í kalda kol í þjóðfélaginu. En nú er jafnvel langlundargeði mínu ofboðið.
Ég sé ekki betur, miðað við upplýsingar sem smátt og smátt eru að birtast staðfestar í fjölmiðlum, en að þröngur hópur sjálfstæðismanna hafi um nokkurra missera skeið vitað hvert stefndi hjá bankakerfinu og hvaða afleiðingar það myndi hafa. Þessir menn, með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra í fararbroddi virðast hafa fengið hverja framtíðarsýnina á fætur annarri frá fræðimönnum og -konum, þar sem bent var á hætturnar, varað við afleiðingunum og gefin ráð um hversu fara skyldi að til að minnka skaðann. Þessum skýrslum var stungið undir stól, þeim haldið leyndum fyrir samstarfsmönnum og bankarnir látnir halda siglingunni áfram.
Sumir Samfylkingarráðherrar, með formanninn í forystu, hafa til þessa ekki viljað láta boða til kosninga í vor, þannig að nýr þingmeirihluti geti sótt sér umboð til kjósenda. Menn hafa ekki viljað fara frá hálfkláruðu verki (ef það er þá hálfklárað enn). Þetta er virðingarverð skoðun, en nú er sá tími liðinn að hún geti verið marktæk. Undirferli óheiðarleiki samstarfsflokksins í stjórnarsamstarfinu hefur opinberast með þeim hætti að ekki verður við það unað. Ráðherrar Samfó hafa verið að gera góða hluti og örugglega sárt fyrir þá að þurfa hugsanlega að ganga frá góðum málum hálfkláruðum. En svona getur þetta bara ekki gengið lengur.
Ég segi enn það sem ég hef sagt áður á þessum vettvangi: Kjósum í maí. Tilkynnum kjördag í endaðan febrúar. Þá liggi fyrir að fullu hver viðfangsefni komandi missera verði í uppbyggingu nýs Íslands. Þá geta flokkarnir hver um sig, eða einhverjir í sameiningu, lagt fram galopna og gegnsæa áætlun um hvernig þeir hyggjast vinna úr vandamálunum. Þar með verður lokið tíma lýðskrums og upphrópana og flokkarnir verða að taka sig saman í andlitinu og leggja fram sínar tillögur. Og kjósendur fá að velja þa leið sem þeir vilja fara, - með þeim flokki eða flokkum sem þeir treysta til starfsins. Þetta gildir auðvitað líka um hugsanleg ný framboð. Svo mætti gjarnan nota tækifærið og leggja fram hugmyndir um breytt skipulag á stjórnkerfinu. Til dæmis að skerpa skilin á milli löggjafarþingsins og framkvæmdavaldsins. Þingmenn segi af sér þingmennsku verði þeir ráðherrar eða - og það er ekki síðra skipulag - að sóttir verði hæfir menn út í samfélagið til að gegna ráðherraembættum. Og svo framvegis, og svo framvegis.
20.1.2009 | 14:39
Furðuleg áhersla á þessum degi
5.1.2009 | 15:58
Ritskoðun eða ritstjórn
Fréttablogg og nafnleynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2009 | 13:32
Kærkomin fordæming
Það var mikill léttir að heyra fordæmingu utanríkisráðherra á framferði Ísraelsmanna í hádegisfréttum RÚV áðan. Ekki síst eftir dapurlegt viðtal við menntamálaráðherra um sama málefni fyrr í fréttatímanum.
Ingibjörg Sólrún gerði akkúrat það sem utanríkisráðherra sjálfstæðrar þjóðar á að gera; fordæmdi skilyrðislaust atferli Ísraelsmanna. Hún, eins og segir í orðsendingu hennar, "fordæmir innrás Israelshers á Gazaströndina sem getur aldrei annað en beinst að saklausum ibúum sem eru varnarlausir, innilokaðir og hafa skipulega verið sviptir aðgangi að nauðþurftum. Svo harkaleg beiting aflsmunar setur þà kröfu á herðar alþjóðasamfélaginu að ganga á milli og senda friðargæslulið inn á svæðið. Utanrikisráðherra harmar afstöðuleysi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna", segir loks í orðsendingunni. Það eru einmitt Bandaríkin sem koma í veg fyrir fordæmingu Öryggisráðsins á herför Ísraelsmanna.
Steingrímur J., formaður VG, hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis í fyrramálið um ástandið í Palestínu. Vonandi verður af þessum fundi og vonandi geta þá fulltrúar Samfylkingar og VG tryggt þá afstöðu nefndarinnar sem sómi er að.
Í lokin: Sennilega hefur hugmyndafræðilegt gjaldþrot sjaldan opinberast jafn rækilega og í orðum Þorgerðar Katrínar, þar sem hún lagði að jöfnu baráttu undirokaðrar og blásnauðrar þjóðar og stríðsrekstur eins mesta herveldis heims. Og eins og þjónkuninni við Ísrael sæmir gerði hún það að meginatriði að Hamas hefði ekki viðurkennt Ísraelsríki. Spyrja má; hefur sú krafa verið sett fram að Ísraelsríki viðurkenni Palestínu? Gæti það hugsanlega breytt einhverju í stöðu mála á svæðinu
31.12.2008 | 16:37
Heimsmet í hræsni
Gefa 85 milljónir dala til palestínskra flóttamanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2008 | 16:14
Einangrum Ísrael
Það er auðséð af framgangi mála að enn einu sinni er verið að brjóta niður innviðina í samfélagi Palestínumanna; sprengja í loft upp aðsetur stjórnvalda og lögreglustöðvar, skóla og sjúkrahús. Útpælt og þrælskipulagt. Einn fullkomnasti her heimsins gegn herlausri þjóð sem í vanmætti sínum reynir að sporna gegn yfirgangi hernámsveldis.
Ég endurtek það sem ég sagði í bloggi hér fyrir neðan; Íslendingar eiga að hafa forgöngu um einangrun Ísraelsríkis í samfélagi siðaðra þjóða. Engin viðskipti við þessa þjóð, engin samskipti á sviði menningar, ekki taka þátt í mótum þar sem lið frá Ísrael taka þátt; hunsa þessa þjóð. Þannig tókst að einangra Suður-Afríku á sínum tíma; þannig er hægt að einangra Ísrael ef einhver alvara er á bak við hneyksunarorðin.
Neita að hætta árásum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.12.2008 | 12:43
Fordæmum fjöldamorðin; mætum á fundinn á Lækjartorgi í dag kl. 16,00
Það fór eins og mig grunaði og ég hef skrifað um áður; alþjóðasamfélagið bregst núna eins og alltaf þegar Ísraelsríki fremur fjöldamorð á Palestínumönnum. Jafnvel núna, þegar Ísrael hefur meira að segja farið framúr sjálfu sér í morðum á óbreyttum borgurum og hyggst halda ótrautt áfram. Þjóðarleiðtogar "lýsa yfir áhyggum sínum af ástandinu". Ef eitthvert annað ríki ætti hér hlut að máli væri búið að samþykkja fordæmingu í Öryggisráði Sþ, jafnvel hóta viðskiptabanni og frystingu inneigna í erlendum bönkum. En Ísraelsríki er friðhelgt undir verndarvæng Bandaríkjanna og afskiptaleysi Evrópusambandsins. Kvartettinn svokallaði er bara sjúklegur brandari sem ekki er ætlað annað hlutverk en sýndarmennsku.
Suður-Afríka var á sínum tíma einangruð með viðskiptabanni, sem fól í sér banni við hvers konar samskiptum við ríkið; menningarlegum og viðskiptalegum, þ. á m. var landið útilokað frá íþróttamótum. Þannig tókst að brjóta aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans á bak aftur. Hvers vegna ættum við ekki að nota þessa aðferð við Ísraelsríki?
Ríkisstjórn Íslands ætti að móta sér þá stefnu að hinn siðmenntaði heimur hafnaði á sama hátt samskiptum við Ísrael. Hún ætti að kynna þessa stefnu sínu á alþjóðavettvangi og afla henni fylgis. Að hafa áhyggjur gerir ekkert, en sú skilyrðislausa fordæming sem samskiptabann við Ísrael hefði í för með sér gæti vakið nauðsynlegt umtal.
Í dag kl. 16,00 heldur Félagið Ísland-Palestína útifund á Lækjartorgi til að mótmæla grimmdarverkum Ísraelsmanna á Gazasvæðinu. Mætum þar og sýnum í verki þá fyrirlitningu sem við höfum á hryðjuverkum Ísraelsríkis.
24.12.2008 | 17:01
Gleðileg jól, - og kosningar í vor!
Eigum við ekki að strengja þess heit að stefna að því að leitast verði við (svo allir fyrirvarar séu notaðir) að kosið verði til Alþingis í vor. Í maí. Tilkynnum kjördag í endaðan febrúar. Þá liggi fyrir að fullu hver viðfangsefni komandi missera verði í uppbyggingu nýs Íslands. Þá geta flokkarnir hver um sig, eða einhverjir í sameiningu, lagt fram galopna og gegnsæa áætlun um hvernig þeir hyggjast vinna úr vandamálunum. Þar með verður lokið tíma lýðskrums og upphrópana og flokkarnir verða að taka sig saman í andlitinu og leggja fram sínar tillögur. Og kjósendur fá að velja þa leið sem þeir vilja fara, - með þeim flokki eða flokkum sem þeir treysta til starfsins. Þetta gildir auðvitað líka um hugsanleg ný framboð.
Svo mætti gjarnan nota tækifærið og leggja fram hugmyndir um breytt skipulag á stjórnkerfinu. Til dæmis að skerpa skilin á milli löggjafarþingsins og framkvæmdavaldsins. Þingmenn segi af sér þingmennsku verði þeir ráðherrar eða - og það er ekki síðra skipulag - að sóttir verði hæfir menn út í samfélagið til að gegna ráðherraembættum. Og svo framvegis, og svo framvegis.
Fínt að eyða jólunum við bóklestur og svona pælingar. GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLD Á NÝJU ÁRI!
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Vefsvæðið mitt Flest það sem máli skiptir um mig og mína
- Samfylkingin Flokkurinn sem máli skiptir
- Kennarasamband Íslands Heildarsamtök kennara
- Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins Vinnustaðurinn minn
- Upplýsingatækniskólinn Merkasti skólinn i Tækniskólanum
- Þróunarsamvinnustofnun Starfsemi Íslendinga með þróunarlöndum
Af mbl.is
Innlent
- Lyftari yfir fót og rjúfa þurfti hurð
- Er kynjastríð í uppsiglingu?
- Dæmdur fyrir kynferðislegt nudd á stjúpdóttur
- Viðræður í Karphúsinu ganga misvel
- Sjálfstæðisflokkurinn á einhvern hátt stjórnlaus
- Áttu að rannsaka akademíuna en gerðu það aldrei
- Kona myrt á 10 mínútna fresti
- Fatlaður drengur fær ekki þjónustu í verkfalli
Erlent
- Handtekinn fyrir njósnir í bandaríska sendiráðinu
- Hefur áhyggjur af notkun eldflauganna
- Herra Volvo er genginn
- Sakar dómstólinn um gyðingahatur
- Merkel segir Trump heillaðan af einræðisherrum
- Hótar Bretum og Bandaríkjamönnum
- Hættir við að reyna að verða ráðherra Trumps
- Segir að Rússar séu að nota Úkraínu sem tilraunasvæði