Leita í fréttum mbl.is

Ekki ræða Bjarna, ekki Þorgerðar Katrínar, bara Davíðs

Yfirklórsræða Geirs Haarde, þegar hann andæfði ummælum Davíðs í endemisræðunni voru veikburða. Enda beindust hún aðeins að því sem Davíð hafði sagt um Evrópuúttektina og Vilhjálm Egilsson. Ekki orð um dónaskap og aulahúmor í garð þeirra sem standa utan Sjálfstæðisflokksins. Það sem eftir stendur hins vegar er sú augljósa staðreynd að þessa landsfundar verður í framtíðinni ekki minnst fyrir ræðu Bjarna Ben, ekki heldur fyrir hvatningarræðu Þorgerðar Katrínar. Hans verður minnst sem landsfundarins þegar Davíð hélt Ræðuna. Og hugsanlega eiga einhverjir sálfræðilegir og félagslegir pælendur eftir að benda á það siðferðisstig sem Davíðstíminn leiddi Sjálfstæðisflokkinn á og lýsti sér í því að þrjú þúsund kjörnir fulltrúar flokksmanna skellihlógu þegar ræðumaðurinn óskaði þess að arftaki hans í stóli seðlabankastjóra væri með alzheimer.

Samstaða á Samfylkingarfundi og freudisk mismæli Sigurðar Kára

Það var gaman að vera á landsfundi Samfylkingarinnar í gær og í dag. Verður vonandi ekki síður gaman á morgun. Því miður varð ég að fylgjast með í gegnum netið heima hjá mér eftir klukkan fjögur, aðstæðna vegna, en ræðan hennar Jóhönnu var ekkert síðri í tölvunni en á gólfinu í Smáranum. Hins vegar vantaði auðvitað andrúmsloftið og að geta kinkað kolli í hrifningu til vina og flokkssystkina og klappað almennilega. Sama með ræðu þeirra varaformannsframbjóðenda, Árna Páls og Dags. Annar þeirra hlaut að sigra en báðir tóku þeir niðurstöðunni á flottan hátt. Og nýr varaformaður flokksins er glæsilegur fulltrúi nýrrar kynslóðar í forystunni.
Í rauninni er þessi landsfundur búinn að vera sérlega skemmtilegur. Dálítið mikið af biðröðum reyndar; biðröð til að láta skrá sig, biðröð til að komast í kaffi og önnur til að komast á matinn. Og ótrúlega löng biðröð til að geta kosið. Þetta er eiginlega alveg ný reynsla; í mínum gamla flokki voru ekki svona miklar og langar biðraðir. Við höfðum ekki mannskap í þær! Þetta fylgir sennilega stórum flokkum. Svo fara fram mjög skemmtilegar umræður í svona biðröðum.
Það sem mönnum fannst einna skemmtilegast í biðröðunum í dag var að ræða um yndisleg ummæli Sigurðar Kára sjálfstæðisþingmanns í einhverjum fjölmiðli í gær, þegar hann sagði að ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki ganga í Evrópusambandið væri að þá myndi "Sjálfstæðisflokkurinn missa yfirráð yfir auðlindum sínum". Sumir höfðu á orði að þarna hefði eitthvað freudískt verið á ferðinni; enn ein sönnun þess að flokkur og þjóð væru eitt í hugum sjálfstæðismanna.

Í tötrum Gróu á Leiti

Ég hlustaði á landsfundarræðu Davíðs Oddssonar á netinu áðan. Þvílik niðurlæging! Maðurinn, fyrrum einn áhrifamesti stjórnmálaforingi þjóðarinnar og orðlagður ræðumaður, hefði svo auðveldlega getað kvatt sviðið með reisn, stigið niður með krafti og kyngi. En hann kaus hlutverk hins hefnigjarna geðvonskupúka, sem dreifir uppnefnum og gróusögum um mótherja sína til að upphefja sjálfan sig og hlutverk sitt í sögunni. Tókst reyndar líka að móðga eftirminnilega samherja sína vegna Evrópuskýrslunnar. Hann gat sumsé valið sér þann kost að stíga stæltur af sviðinu en kaus að staulast af því í tötrum Gróu frá Leiti. Slúðurberinn afhjúpaði sjálfan sig.

Ríkisstjórn í gislingu

Á þetta að vera trikkið; að hver og einn þingmaður Framsóknarflokksins geti haft úrslitavald um það hvort mál ríkisstjórnarinnar komist í gegnum nefndir og þing. Ætli Sigmundur Davíð hafi hannað þessa atburðarás?
mbl.is Vilja fresta seðlabankaumræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert lært, öllu gleymt

Það var uppörvandi að hlusta - og horfa - á Sigurð Kára í Kastljósinu í gærkvöldi. Það er þó að minnsta kosti eitthvað sem er stöðugt og óumbreytanlegt í lífinu, hvað sem líður efnahagslegum kollveltum og ólgu. Ráð Sigga Kára voru þau sömu og hann - og hinir frjálshyggjugaurarnir - hefur verið að gefa um nokkurt árabil: Skera niður í ríkisútgjöldum, leggja niður opinberar stofnanir. (Sinnti að vísu ekki spurningum um hvort það myndi ekki auka atvinnuleysi.) Alls ekki hækka skatta, bara skera niður opinbera þjónustu; heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngukerfið. Skatta á þá sem eiga peninga og/eða eru á hærri launum en meðaljóninn? Alls ekki, það eru ekki þeir sem eiga að leggja að mörkum til samfélagsins! Blessaður drengurinn; hefur tekist að komast í gegnum hamfarir undanfarinna missera með lokað og læst fyrir öll skilningarvit; ekkert lært og öllu gleymt.

Framkvæmda en ekki málefna

Það var skemmtilegt að verða vitni að því í dag, þegar Þorgerður Katrín staðfesti að það hefði verið tregða Sjálfstæðismanna til framkvæmda sem sprengdi síðustu ríkisstjórn. Þegar hún var spurð í sjónvarps- og hljóðvarpsviðtölum um skoðun sína á málefnasamningi - eða verkefnalista - nýrrar ríkisstjórnar, sagði hún að þar væru eintóm málefni sem hefðu verið á málefnaskrá síðustu stjórnar. "Þarna er ekkert nýtt", sagði hún, "sem sýnir okkur að það var ekki málefnaágreiningur sem sprengdi ríkisstjórnina." Nefnilega! Það var, eins og Samfó hefur haldið fram, tregða Sjálfstæðismanna til að framkvæma málefnin sem sprengdi stjórnina. Ekki málefnaágreiningur, heldur framkvæmdaágreiningur.

Loksins stjórn sem gefur von!

Þá er nýja stjórnin loksins orðin að veruleika henni virðast fylgja góðar óskir og vonir meirihluta landsmanna. Jóhanna Sigurðar í forsætisráðherrastól er auðvitað tær snilld; enginn efast um heiðarleika hennar, réttsýni og umhyggju fyrir þeim sem á þessum tímum þurfa mest á stuðningi að halda. Svo er hún forkur dugleg. Í ráðuneyti hennar mætir hún fyrst á morgnana og fer síðust á kvöldin. Ég heyrði raunar haft eftir einum starfsmanni Félagsmálaráðuneytisins að menn væru þar útkeyrðir vegna vinnuálags. Frábært núna, þegar slá þarf í og hraða vinnunni. Á sama hátt er skemmtilegt að verða vitni að því þegar nýtt fólk kemur utanfrá og sest í ráðherrastóla sem sérfræðingar á sínu sviði.

Það var auðséð á hógværum Steingrími Joð að hann hefur nú áttað sig á að þegar flokkur fer í stjórnarsamstarf þarf hann stundum að gera málamiðlanir, nokkuð sem hann hefur ekki gefið mikið fyrir þegar aðrir flokkar eiga í hlut. En rak sig á núna, eins og sjá má á verkefnalistanum.

Næsta vika verður bersýnilega viðburðarík í íslenskum þjóðmálum. Frumvörpum um hagsbætur ætti að rigna yfir Alþingi og vonandi fær nú almenningur á nýjan leik trú á að í framtíðinni gæti leynst von.


Óhugnanlegur hugsanagangur

Nú er verið að mynda nýja ríkisstjórn og maður ætti að vera brosandi hringinn. En þá koma fréttir eins og þessi um Magnús Örn í Borgarhjólum. Sem hefur sett miða á gluggann hjá sér þar sem hann segir að "júðar" séu óvelkomnir. Segir aðspurður að sér hafi verið illa við júða í mörg ár.

Nú veit ég ekkert um þennan mann, en þessi hugsanaháttur færir mann í huganum aftur til síðari heimsstyrjaldar og þeirrar viðurstyggðar sem nasistar iðkuðu við "þjóðernishreinsanir" sínar. Þar voru það "júðar" sem var reynt að útrýma, markvisst og af einurð.

Vonandi eru þeir ekki margir sem hugsa svona á 21. öldinni.

En um leið og gyðingahatur er fordæmt er rétt að minna á að það eru ráðamenn í gyðingaríkinu Ísrael sem hafa verið iðnastir við að framleiða gyðingahatara undanfarin ár, með hryðjuverkum sínum gagnvart íbúum Palestínu. Þeir eru nefnilega býsna margir sem verða ekki bara andsnúnir Ísraelsríki heldur líka gyðingum almennt.


Hvíldu þig, Solla!

Það tók á að horfa á Ingibjörgu Sólrúnu í aukafréttum sjónvarpsins í hádeginu í dag. Hún er bersýnilega örþreytt. Kemur heim úr sjúkrameðferð með þau fyrirmæli að hvíla sig og lendir beint í hringiðunni. Tilmæli til annarra í flokksforystunni: Leyfið henni að hvílast og safna kröftum. Flokkurinn á úrvalsmannskap sem er fær um að leysa þau vandamál sem nú þarf að leysa; varaformanninn, ráðherragengið og þingmannaliðið. Vitaskuld yrði formaðurinn á hliðarlínunni og með í ráðum en látum öðrum eftir erfið fundahöld. Solla er okkur Samfylkingarmönnum of mikils virði til að við viljum sjá hana keyra sig út á erfiðum tímum.

Tekur Geir til hjá sér?

Afsögn Björgvins G. er tímamótagerningur, hvort sem mönnum finnst hún koma of seint eða ekki. Mér finnst Björgvin maður að meiri eftir hana. Það athyglisverða í máli hans, þegar hann kynnti ákvörðun sína, var þó að hann hvatti í raun forsætisráðherra til að taka einnig til í sínum ranni, þ.e. í Seðlabankanum og jafnvel í fjármálaráðuneytinu. Það verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort Davíð hafi virkilega það hreðjartak á forsætisráðherra og raunar forystu Sjálfstæðisflokksins allri að hann verði látinn sitja áfram eins og ekkert sé. Þjóðin mun fylgjast gaumgæfilega með málinu; nú reynir á.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband