Leita í fréttum mbl.is

Gagnsemi þróunaraðstoðar

Nokkuð hefur verið fjallað um þróunarhjálp síðustu daga, innan bloggheima og utan. Þar hafa einkum þrjár greinar vakið athygli mína; Sólrún María Ólafsdóttir ritar um þróunarhjálp og Malaví í Morgunblaðið 29. nóvember, Hannes Hólmsteinn Gissurarson um gagnslausa þróunaraðstoð í Fréttablaðið 30. nóvember og loks bloggar Ívar Pálsson um þróunarlausa aðstoð 1. desember.

Það er mikill munur á þessum þremur greinum, Sólrúnar Maríu annars vegar og hinum tveimur hins vegar. Þær eiga það hins vegar allar sameiginlegt að í þeim er vitnað til orða þeirra landlæknishjóna Sigurðar og Sigríðar í viðtölum eftir að þau komu heim eftir ársdvöl í Malaví.

Sólrún María hefur það framyfir þá félaga Hannes Hólmstein og Ívar að hún þekkir málefnið sem hún skrifar um, enda starfar hún hjá Þróunarhjálp Sameinuðu þjóðanna. Hún veit hvað hugtakið þróunaraðstoð felur í sér. Það virðast þeir Hannes og Ívar hins vegar ekki gera; a.m.k. fer það svo, að þegar þeir leita dæma til að sýna fram á tilgangsleysi þróunaraðstoðar þá grípa þeir til dæma á borð við matargjafir og peningagjafir til spilltra valdhafa í þróunarríkjunum. Slíkar gjafir eru ekki þróunaraðstoð, ekki heldur fatagjafir sem oft hafa átt sér stað eftir velheppnaðar safnanir hér á landi og annars staðar. Þróunaraðstoð er aðstoð við uppbyggingu og getur tekið mörg ár; fata- og matargjafir eru neyðarhjálp sem ætlað er að bæta úr brýnni, tímabundinni neyð. Ég vona að þeir Hannes Hólmsteinn og Ívar telji það ekki hugmyndafræðilega rangt að koma í veg fyrir að fólk deyji úr hungri eða krókni úr kulda.

Það verður að segjast eins og er að þeir sem til þekktu furðuðu sig nokkuð á þeim ummælum sem höfð voru eftir landlæknishjónunum við komuna heim frá Malaví. Ekki vegna þess að þau væru í eðli sínu röng, heldur vegna þess að framsetningin var slík að halda hefði mátt að stofnunin sem þau hjónin unnu hjá þetta ár, Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ), iðkaði þau vinnubrögð sem þau voru að gagnrýna, m.a. gagnslausar peningagjafir. Sem er alrangt.

Íslendingar hafa markað ákveðna stefnu í þróunaraðstoð sinni við þriðja heims ríki. Stefnan sú byggist á að gera heimamenn færa um að hjálpa sér sjálfir. Þessi stefna kristallast í starfi ÞSSÍ, sem tekið hefur þátt í fjölda verkefna í Afríkuríkjunum Úganda, Malaví, Mósambík og Namibíu, auk tiltölulega nýrra verkefna í Níkaragúa og á Sri Lanka. Þessi verkefni eru á sviði menntamála (fullorðinsfræðsla, leikskólar, barnaskólar, heyrnleysingjaskólar) og annarra félagslegra málefna.

Ágætis dæmi um eðli starfsins eru t.d. sjómannaskólinn í Walvis Bay, Namibíu og rannsóknarstofa fiskiðnaðarins í Mapútó, Mósambík. Á báðum stöðum var starfsfólk menntað og þjálfað, kennarar og stjórnendur á öllum sviðum í Walvis Bay og starfsmenn, rannsóknarfólk og stjórnendur víða að af landinu í Mapútó. Reksturinn er kominn í það horf að Namibíumenn hafa tekið alfarið við sjómannaskólanum í Walvis Bay, sem viðurkennt er að er fullkomnasti sjómannaskóli í Afríku og þótt víðar væri leitað. Í rannsóknarstofu fiskiðnaðarins í Mosambík hefur verið byggt upp öflugt eftirlitskerfi með gæðum sjávarafla, þar sem lokamarkmiðið er að ná þeim gæðastaðli sem þarf til að komast inn á markað Evrópusambandsins. Á báðum þessum stöðum er lokamarkið að gera íslenska leiðbeinendur þarflausa, þannig að heimamenn geti tekið við og rekið sínar eigin sjálfbæru stofnanir, með öruggum tekjustofnum. Í Walvis Bay er því takmarki náð og enginn Íslendingur eftir við skólann, Mósambík er farið að flytja fisk á Evrópumarkað, beinlínis vegna þess gæðastarfs sem rannsóknarstofan hefur verið að skipuleggja vítt um landið með aðstoð ÞSSÍ.

Þetta er þróunarhjálp, þróunarsamvinna sem á sér stað í fullkominni samvinnu við sveitarstjórnir viðkomandi svæðis og það ráðuneyti sem viðkomandi starfsemi heyrir undir, á forsendum heimamanna. Að telja slíka aðstoða gagnslausa (HHG) eða þróunarlausa (ÍP) felur í sér fullkomna vanþekkingu á málefninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Takk fyrir pistilinn Orð í tíma töluð

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 2.12.2007 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband