Leita í fréttum mbl.is

Kímnigáfa Davíðs ræður ekki lengur

Nú er formaðurinn minn aftur farin(n) að hrekkja Davíð Oddsson, núna með því að hnýta í vinnustaðinn hans. Heldur því blákalt fram að peningastefna Seðlabankans hafi brugðist og bankinn því ekki staðið þá plikt sem honum ber sem æðsta peningastofnun landsins. Þetta finnst Davíð áreiðanlega sprenghlægilegt, næstum eins hlægilegt og umræðan um evruna. Það er mikil mildi að framtíð lands og þjóðar byggist ekki lengur á kímnigáfu Davíðs Oddssonar.
En maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Er hægt að komast að einhverri annarri niðurstöðu ef litið er í kringum sig með eugun sæmilega opin?

Sollu fyrir Condý? Dream on!

Ég las einhvers staðar að í næstu viku myndi Ingibjörg Sólrún hitta Condoleezzu Rice á fundi. Svona er það; þegar maður er ráðherra ræður maður ekki endilega við hvern maður talar. En þetta minnti mig á að ég var að lesa amerískan fréttavef um daginn, um það þegar Íslendingar kölluðu heim lið sitt frá Írak. Í athugasemdum um fréttina gerðu menn góðlátlegt grín að fjölmenni íslenska liðsins og áhrifum þess í "uppbyggingar"ferlinu. Auk þess að gera dálítið grín af forsetanum sínum:

"Dang....... I wish I could hear Bush mangle that Foreign Minister's name...."

Annar lagði fram fróma ósk og skiljanlega:

"I wonder if our Icelandic friends would be willing to trade Ingibjörg Sólrún Gísladóttir for Condaleeza Rice? We would be happy to throw in Doug Feith and draft choices to be named later."

Þetta er vissulega skiljanleg bón, en sorrí vinir vorir í vestri, ekki glæta.


Einar Oddur og Baldvin

Í blaðahrúgunni rakst ég á að tveir merkismenn höfðu látist meðan ég var í burtu. Annar var Einar Oddur, stórmerkur stjórnmálamaður sem ég var vissulega sjaldnast sammála en ávann sér orð fyrir hreinskiptni og heiðarleika í starfi. Þjóðarsáttin stendur þar upp úr, þar sem hann ásamt Guðmundi Jaka og Ásmundi Stefánssyni lögðu grunn að þeim stöðugleika sem við þó búum við í dag.
Hinn var gamall kollega og starfsbróðir í Prenthúsi Hafsteins, Baldvin Halldórsson leikari og setjari. Mikill fagmaður í umbroti í gamla blýtrukkinu og ekki síður fagmaður í leiklistinni. Þegar ég var í gamla daga að búa til útvarpsþætti fékk ég hann iðulega til að leggja mér til röddina við upplestur, hvort heldur var um að ræða ljóðlist eða óbundinn texta. Frábær listamaður sem ég fékk því miður ekki tækifæri til að fylgja til grafar vegna fjarveru.

Seinar vangaveltur ujm Lúkasarmál

Ég hef verið að flétta í gegnum blaðahrúguna eftir að heim kom og séð margt, bæði dapurlegt og skemmtilegt. Veit eiginlega ekki hvar á að flokka það leikhús fáránleikans sem varð til í kringum hundinn Lúkas. Kannski er það bara dapurlegt hvernig hægt er að spana hóp fólks í múgsefjunaræði með einnisaman fullyrðingu eða getsökum; hafa af ungum manni vinnuna með ásökunum sem ekki er einu sinni sýnt fram á að eigi sér forsendur. Ætli eigandi hundsins hafi beðið unga manninn afsökunar?

Tyrkneskur hiti - íslenskur kuldi

Ég er ekki frá því það hafi verið lítt dulinn illkvittnishreimur í rödd flugstjórans þegar hann sagði okkur frá því rétt fyrir lendingu að hitinn í Keflavík væri 7 gráður þarna í morgunsárið. En stjórinn var útlendingur og kannski hef ég bara ekki fattað hreiminn alveg. En að fara úr 40 gráðu meðaltalshita undanfarnar þrjár vikur í 7 gráður er dálítið áfall. Ekki minna áfall að bíllinn minn á langtímastæðinu var með hrímaða framrúðu! Og ég í sandölum á tánum og tébol! Kallar næstum á áfallahjálp.
En ég er ekki frá því að loftið hérna uppfrá sé soldið þægilegra til innöndunar en síðdegisloftið í Marmaris, sem þó er með frábærustu stöðum. Hæsta talan á hitamælum götunnar sem við frú Erla sáum var 46 gráður og það var bara frábært, þótt heitt væri. Þarna eyddum við hjón þremur vikum á síðasta ári og aftur núna um daginn og ekkert hafði breyst nema til batnaðar. Ég mæli með þessum stað fyrir hvern þann sem vill eiga gott sumarleyfi.

Stórkostleg ferð um Fjallabak syðra

Um helgina fór ég í fyrsta sinn í ferð um Fjallabaksleið syðri. Dagsetningin var ákveðin í apríl og öllu heppnari hefðum við ekki getað verið, þessi hópur sem þarna var á ferð. Þarna vorum við sem sitjum í stjórn Sigfúsarsjóðs ásamt Öddu Báru Sigfúsdóttur Sigurhjartarsonar. Hún varð áttræð á gamlársdag síðasta og þegar við sögðumst vilja halda henni veislu hryllti hún sig og sagðist vera komin með upp í kok af veisluhöldum; flestir vina hennar hefðu orðið áttræðir á síðasta ári og ekkert lát á veisluhöldum. Þegar hún var spurð hvað við gætum gert í tilefni áttræðisafmælisins sagðist hún eiga sér gamlan draum; að fara Fjallabaksleið syðri. Svo við í stjórninni ákváðum að fara með henni í slíka ferð.
Og hvílík ferð. Veðrið frábært, landslagið stórbrotið og margvíslegt. Reyndar munum við hafa verið fyrsti hópurinn sem fer þessa leið þetta sumarið, sem ekki var mjög leiðinlegt að frétta. Leiðsögumaðurinn okkar var Vigfús Gíslason, Þorlákshafnarbúi úr Skaftártungunum sem gengið hefur þarna þvers og kruss um dali og hálsa og eyðisanda, vissi allt sem vita þarf og miklu meira. Auk þess að vera skemmtilegur félagi.
Gistum svo aðfararnótt sunnudagsins á Hótel Laka í Landbroti. Ég sé raunar ástæðu til að mæla með því, svona í framhjáhlaupi.
Á sunnudeginum, í gær, dóluðum við svo niður Landbrotið, í gegnum Meðallandið, yfir í Álftaver og þaðan til Reykjavíkur.
Æðislegt!

Að vera ekki starfinu vaxin

"Haldiði kjafti og borgiði", sagði hún, efnislega, talskona Já símafyrirtækisins í fréttunum í gær, þegar hún var spurð um skýringu á liðlega hundrað prósent hækkun á gjöldum fyrir birtingu á sérupplýsingum í símaskránni. Sjaldan hefur maður séð jafn skíran holdgerfing fyrirlitningar á viðskiptavinunum hjá fulltrúa fyrirtækis. Meira að segja forstjórar olíufélaganna þóttust bera hag viðskiptavinanna fyrir brjósti.
Svo er það náttúrlega svona útúrdúrspæling: Er ég einn um að hafa það á tilfinningunni að einkavæðing ríkisfyrirtækjanna hafi lítið annað haft í fjör með sér en margföldun á verði þjónustunnar?

Fínt framtak hjá Ingibjörgu Sólrúnu

Það er sannarlega ástæða til að gleðjast yfir þessu framtaki nýja utanríkisráðherrans. Aukin áhersla ráðuneytisins á þróunarmál er fagnaðarefni og einmitt í nokkrum löndum Afríku hafa Íslendingar verið að gera mjög frábæra hluti í þróunarhjálp, ekki síst á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Mosambik, Malawi, Namibíu og Uganda, en einnig á vegum t.d. Hjálparstofnunar kirkjunnar í Kenýja og fleiri löndum. Það er því virkilegt fagnaðarefni að Ingibjörg Sólrún skuli fara þessa ferð og mynda þau sambönd sem leiðtogafundur Afríkusambandsins gefur kost á.
mbl.is Ingibjörg Sólrún á leiðtogafund Afríkusambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flísalögn og hagleiksbörn

Ég hef verið að fást við að flísaleggja svalirnar hjá mér, bæði norðan til og sunnan. Þ.e.a.s. ég keypti efnið og það sem við á að éta, en það sannast nú sem svo oft áður að það er gæfa manns eins og mín að eiga handlagin börn með verksvit. Það er frumburður okkar hjóna, HM2 sem sér um framkvæmdina, en ég er meira í að hræra límið og rétta flísar. En það er samt ekki laust við að ég finni til mín í morgunsárið, þegar ég kíki út á svalirnar og sé hvað þetta verður flott þegar ég er búinn troða fúgunni milli flísanna. Sem ég(!) þarf helst að gera áður en við hjónin förum í góðra vina hópi Fjallabaksleið um næstu helgi.

Nýr kafli í blekkingarsögunni miklu

Já, það fór sem við var að búast. Sendiboði Bush og Ísraels tekinn til starfa við að stilla til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs. Sáttasemjari verður að vera einhver sem þeir treysta sem eiga í deilum. Tony Blair hefur ekki traust neinna nema Bush og Ísraelsmanna; Rússarnir létu til leiðast þótt tregir væru, arabaleiðtogar treysta honum ekki og jafnvel Evrópusambandið lýsti yfir efa um skipunina, hafandi þó tekið virkan þátt í að skipuleggja hörmungar palestínsku þjóðarinnar. Nýr kafli er að hefjast í blekkingarsögunni miklu; nú getur Ísrael haldið áfram að múra inni þorp og byggðir Palestínumanna, eyðileggja akra, reisa ólöglegar landránsbyggðir og hrekja Palestínumenn af heimilum sínum án þess að hafa áhyggjur af áliti heimasbyggðarinnar. Hvílík smán fyrir hinn svokallaða siðmenntaða heim. Svo erum við að troða okkar siðferði upp á aðra heimshluta.

Man annars einhver eftir því lengur að Ísrael er hernámsríki? Og hvaða alþjóðalög og reglur það eru sem gilda um samskipti hernámsþjóðar og þeirra sem hernumdir eru?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband