Leita í fréttum mbl.is

Fáránleg hugmynd en verður áreiðanlega ofaná

Sú hugmynd, að gera Tony Blair að leiðandi manni í svokölluðu "friðarferli" fyrir botni Miðjarðarhafs, er svo vitlaus að hún er ekki einu sinni hlægileg. Að Bush og Ísrael frágengnum er hann, vegna afstöðu sinnar og skilyrðislausrar fylgispektar, persónugerfingur þeirra hörmunga og þjáninga sem íbúar þessa heimssvæðis þurfa að búa við. Hugmyndin ein er dæmi um hroka og fullkomið skeytingaleysi gagnvart íbúum Miðausturlands.
mbl.is Arabar ekki hrifnir af Tony Blair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskriftarferðir

Hrakfarir - eða öllu heldur fíflaskapur - Verslinga í útskriftarferðinni sinni til útlanda minnir mig á eftirminnilega heimsókn á heilsugæslustöð á Kýpur. Ég hafði orðið fyrir nokkrum áverka á fæti kvöld nokkurt en ákvað að setja bara á hann sótthreinsandi krem og plástur úr farangrinum. Morguninn eftir var sárið orðið þrútið og ljótt svo ég fór á heilsugæslustöðina, þar sem tekið var á móti mér af kýpverskum lækni sem átti ekki orð til að lýsa því hverslags fáráður ég væri, eftir að ég sýndi honum sárið og sagði honum að ég væri bæði á hjarta- og blóðþynningarlyfjum. Þegar hann svo frétti að ég væri kennari datt yfir hann: "You teacher! You very clever, huh?!" hnussaði hann. En eftirminnilegast var þó þegar þjóðerni mitt kom í ljós. "Icelandic! Very good people, Icelandic. Always something wrong!" Þegar ég leitaði skýringa kom í ljós að svo sem hálfum mánuði fyrr hafði hópur af skólafólki verið þar í útskriftarferð og þar var brjálað að gera á heilsugæslustöðinni, sannkallað vertíðarástand. Hópurinn hafði meðal annars tekið á leigu nánast allar skellinöðrurnar og vespurnar á svæðinu og þandi um göturnar í tvímenningi án þess að kunna neitt að ráði á farartækin. Afleiðingin voru eilíf meiðsli og blóðugar og marðar biðraðir á heilsugæslustöðinni. Fyrir auðvitað utan ælupestir og iðraproblem. Very good people, Icelandic. Always something wrong. Gott að það skuli a.m.k. vera ein stétt sem kann að meta íslenska námsmenn í útskriftarferð.

Frábær helgi í Tjaldanesi

Helgin varð eins og til var sáð; frábær. Veðrið, staðurinn og félagsskapurinn. Skruppum að Reykhólum, þar sem frú Erla sá sundlaugina sem hun lærði að synda í níu ára gömul uppúr miðri síðustu öld; send þangað úr heimahögunum í Flatey. Síðan hafði fundum þeirra ekki borið saman. Hún - sundlaugin - hafði eitthvað skroppið saman miðað við minninguna. Frá Reykhólum sást Snæfellsjökull handa Breiðafjarðarins í sólskininu og ekki skýhnoðri á himni. Nett nostalgíukast hjá þeim sem voru alin upp á þessum slóðum (frú Erla og Vilhelmína Þór). Við hin dáðumst að umhverfinu, skoðuðum Grundará, þar sem "lækur tifar létt um máða steina" (Sigurður Elíasson orti þetta kvæði um akkúrat þessa á) og dáðumst í fram og til bakaleiðunum að Barmahlíð "hjalla meður græna". Ég hef ekki fyrr áttað mig á þessum hjöllum. Frábært, - og þriðja kynslóð Leirbekkinga að koma til leiks.

Jónsmessuhátíð Leirbekkinga

Við Leirbekkingar ætlum að halda Jónsmessuhátíð um helgina, byrjum í kvöld. Í þetta sinn í Tjaldanesi, vestur í Dölum. Í öllu mínu félagsmálavafstri er þetta sennilega skemmtilegasti félagsskapurinn; fyrrverandi íbúar að Leirubakka 32 í Breiðholti. Fólk sem fyrir næstum fjörutíu árum byggði sér íbúð í þessum stigagangi og er enn að hittast. Við byrjuðum snemma að halda Þorrablót, uppskeruhátíðir eftir lóðaslátt og Jónsmessuhátíðir og mynduðum þannig vináttusambönd sem enn haldast. Eigum meira að segja okkar eigin “þjóðsöng”, ortan og samin af tveimur íbúanna, - efast um að hjartnæmar hafi verið fjallað um einn stigagang í Breiðholtinu, - og þótt víðar væri leitað. Þetta verður skemmtileg helgi. Nánar er hægt að kynnast Leirbekkingum og þjóðsöngnum okkar á þessari slóð: http://gamli.ir.is/~hmh/leirubakki.html

Fín grein hjá Stefáni Jóni

Stefán Jón Hafstein skrifar fína grein og tímabæra í Moggann í morgun, um endalok R-listans sáluga. Þau Svandís Sv. og Steingrímur Joð hafa verið að reyna að þvo hendur vinstri grænna af því máli með því að skrifa söguna eftirá og kenna auðvitað öllum öðrum en sjálfum sér um. Þau sýna réttmæti þess sem sagt hefur verið, að getur verið erfitt að horfast í augu við sjálfan sig, sérstaklega þegar maður er búinn að forklúðra þeirri ímynd sem maður vill skapa af sjálfum sér. Við sem sátum í fulltrúaráði Samfylkingarinnar í Reykjavík á liðnum árum vitum hvernig VG virtist vinna markvisst að því að eyðileggja þetta samstarf. Kannski var það ekki síst sú reynsla sem gerði það að verkum að það voru ekki allir áfjáðir í að taka upp samstarf við VG eftir Alþingiskosningarnar, - ég a.m.k. treysti þeim ekki.
Steinunn Valdís boðaði grein um þetta sama efni, - endalok R-listans, - í viðtali við Moggann um daginn; ég er áreiðanlega ekki einn um að bíða í ofvæni.

Af hverju ekki bara biðja beint?

Í Dévaffinu sé ég að undrið á Ómega er búið að koma sér upp nýrri peningamaskínu; býður mönnum greiða frá Guði gegn því að þeir láti peninga af hendi rakna til stöðvarinnar. Guðsgreiðinn er þá væntanlega í samræmi við gjafir þeirra. Skrítið. Hvernig stendur á því að maður í svona beinu sambandi við almættið biður ekki bara Guð um pening? Rétt sisona. Af hverju þessa milliliði?

Hræsni og hryðjuverk

Olmert og Bush með böggum hildar af áhyggjum vegna ástandsins á Gaza og Vesturbakkanum. Eymingjans hróin, skilja auðvitað ekkert í öllum þessum látum í fólkinu. Kannski þeir ættu að spyrja hana Condy.

Í alvöru talað; hve lengi á að lepja upp hræsnina og yfirdrepsskapinn sem lekur út úr þessum mönnum?  Olmert segist ætla að afhenda Abbas og nýju stjórninni hans nokkur hundruð milljóna dollara sem voru frystir til að "Hamas kæmi ekki höndum yfir þá"! Hamas kæmi ekki höndum yfir?! Og þetta er birt athugasemdalaust eins og það sé allt í þessu fína. Voru þetta ekki peningar sem heyrðu til Palestínsku þjóðinni? Og hverjir eru lýðræðislega kjörnir til forystu í Palestínu í fullkomlega heiðarlegum kosningum, að allra mati? Hamas. Og er þá ekki frysting þessara fjármuna hreinn og klár þjófnaður? Að sjálfsögðu.

Staðreyndin er sú að með því að neita að afhenda réttkjörnum yfirvöldum Palestínsku þjóðarinnar þá fjármuni sem þeim bar, hafa ísraelsk yfirvöld leitt slíkar hörmungar yfir palestínsku þjóðina að ekkert orð annað en hryðjuverk nær yfir þetta athæfi og afleiðingar þess. Það dapurlega er að það afl sem við Íslendingar erum í raun þátttakendur í hefur tekið þátt í þessum hryðjuverkum; Evrópusambandið hefur ekki aðeins stutt aðgerðir Ísraelsmanna heldur bætt um betur með því að draga til baka alla aðstoð við þessa herteknu og hrjáðu þjóð.

Norðmenn stigu rétt skref með því að viðurkenna þjóðstjórnina sálugu, þótt ekki væri hún svosem þjóðkjörin. Vonandi lætur nýi utanríkisráðherrann ekki sitja við orðin tóm heldur kemur á almennilegu og heiðarlegu sambandi við Palestínu.


« Fyrri síða

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband