Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ráðherraskipti? Nei takk!

Er hún ekki á villigötum þessi umræða um ráðherraskipti, a.m.k. sá hluti hennar sem snýr að Samfylkingunni? Jón Gunnarsson, "týndi þingmaðurinn", setti fram þá kröfu að Björgvin G. og Þórunn Sveinbjarnar láti af ráðherradómi. Ástæðan? Þau hafa sett fram þá skoðun að kosningar gætu verið æskilegar á næsta ári. Þessi krafa Jóns á svo arfavitlausu forsendum hefur síðan endurómað í gagnrýnislitlum fjölmiðlum.

(Innan sviga verður að halda því til haga að það þykir ekki við hæfi að ráðherrar hafi skoðun á þeim málum sem eru í umræðunni á hverjum tíma, a.m.k. eru sjálfstæðismenn óskaplega viðkvæmir gagnvart þeim ósið Samfylkingarráðherra að lýsa skoðunum sínum. Þeir (sjálfstæðismenn altso) eru orðnir svo viðkvæmir að farið er að nálgast viðkvæmni framsóknarmanna á síðustu misserum síðustu ríkisstjórnar.)

Það er alveg hugsanlegt að rétt hefði verið af Björgvin G. að segja af sér við hrun bankakerfisins. Ekki vegna þess að hann prívat og persónulega væri sekur um embættisafglöp af neinu tagi, heldur til að axla ábyrgð sem ráðherra bankamála. Líklega hefði hann þá stigið til hliðar með sóma og staðið sterkari eftir. En ég segi "hugsanlega" og er ekki sannfærður um að þetta hefði verið rétt skref; er eiginlega frekar vaklandi í málinu. Að minnsta kosti teldi ég að ef ráðherra bankamála hefði axlað sín skinn vegna hrunsins þá hefði ráðherra fjármála orðið að gera það líka, annað hefði verið fráleitt. En ég teldi það fráleitt að skipta Björgvin út núna. Of langt er liði frá hruninu og brottvikning hans úr embætti hefði aðeins á sér yfirbragð kattarþvottar; slíkt væri í besta falli aðhlátursefni.

Að setja Þórunni Sveinbjarnardóttur til hliðar væri fullkomið glapræði. Þórunn er fyrsti umhverfisráðherrann sem ég man eftir sem hefur borið hag umhverfisins - náttúrunnar - fyrir brjósti. Sem er akkúrat það sem þessi ráðherra á að gera. Í fyrsta sinn hafa stóriðjufurstar og virkjanagreifar orðið að lúta leikreglum. Þeir hafa vissulega verið fúlir og þá ekki síður íbúar þeirra svæða sem töldu sig geta gengið áhyggjulaust að virkjunum og verksmiðjubyggingum heima í héraði. Þannig að Þórunn hefur ekki verið að afla sér eintómra vinsælda alls staðar, en það er heldur ekki hlutverk ráðherra. Þeir eiga að sjá svo um að farið sé eftir lögum og leikreglum, og það hefur Þórunn gert með sóma.


Alþjóðsamfélagið mun bregðast sem fyrr

". . . að Ísraelar muni ekki sitja aðgerðalausir haldi herskáir Palestínumenn áfram að gera flugskeytaárásir frá Gasasvæðinu yfir landamærin til Ísraels." Málsvarar friðar, mannúðar og hófsemdar í mannlegum samskiptum eru stórhneykslaðir á viðbrögðum Palestínumanna við morðárásum Ísraelsmanna og brotum á vopnahléi. Og sannið til; þetta svokallaða alþjóðasamfélag á eftir að jesúsa sig og krossa yfir aðgerðum Palstínumanna og leggja blessun sina yfir aukningu á hryðjuverkum Ísraelsmanna gagnvart íbúum Gaza. Verst að maður skuli ekki geta bundið vonir við nýjan forseta Bandaríkjanna; hann lofar góðu í ýmsu en í málefnum Ísraels og Palestínu virðist hann ætla að feta stigu forvera sinna og beygja sig í duftið fyrir Ísraelsmönnum og gyðingasamtökum heimsins.
mbl.is Ísraelar leita stuðnings við hernað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkingar við ritstjórn

Það er misskilningur að DV hafi glatað trausti sem fjölmiðill eftir Kastljósið í gær. Þetta blað hefur ekki notið neins trausts, eins og glögglega hefur komið fram í könnunum. Sem von er; þetta blað er ekki bara ómerkilegt, það er beinlínis óheiðarlegt. Þannig að þegar þeir feðgar Reynir og Jón Trausti reyna að setja sig á háan hest og predíka sjálfstæði og heiðarleika í blaðamennsku veldur það engu nema fyrirlitningarhlátri.
Þegar Reynir Traustason reynir að ljúga sig út úr vandræðum sínum og bera rangar sakir á fyrrum blaðamann sinn, afhjúpar hann sitt rétta eðli. Og sonurinn er bersýnilega ekki föðurbetrungur í þessum málum. Þeir eiga auðvitað ekki að vera við stjórn á dagblaði, nema það hafi þá viðmiðun að verða íslensk útgáfa af sneplum á borð við bresku Star, Mail og önnur slík. Sé það metnaðurinn hefur þeim tekist vel upp. Þeir stýra blaði sem er á góðri leið með að fara á hausinn vegna þessarar stefnu.
mbl.is Breyttur leiðari DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsreglur um sérstöðu

Það er eins gott að nýji forsetinn sé með það á tæru að Ísrael hefur þá sérstöðu meðal þjóða að þurfa ekki að fara að alþjóðalögum, ekki fara eftir ályktunum Sameinuðu þjóðanna, þurfa ekki að virða úrskurði Alþjóðadómstólsins, þurfa ekki að virða mannréttindi þegna sinna eða þegna annarra ríkja og hafa fullt frelsi til hryðjuverka á íbúum Gaza og annars staðar í Palestínu.
mbl.is Ísraelar vilja setja Obama starfsreglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanir og orð

Ég er viss um að hann Grímur Atlason kom (í bloggi sínu á Eyjunni í gær) í orð hugsunum fjölmargra Samfylkingarmanna þessa dagana. Við horfum með skelfingu á þá staðreynd að ekki virðist nokkur möguleiki að hreinsa til í fjármálageiranum; tregða Sjálfstæðismanna til mannabreytinga er (búið) að gera Íslendinga að aðhlátursefni meðal siðaðra þjóða. Maður veltir fyrir sér hvaða tök Seðlabankastjóri eiginlega hefur á forsætisráðherranum. Það er svo sannarlega hægt að taka undir þessi orð Gríms í opnu bréfi til Ingibjargar Sólrúnar:

"Þjóðin bíður eftir að leiðtoginn standi upp og taki kúrsinn þannig að við getum fylkst að baki honum. Þú ert leiðtoginn og þú verður að axla þá ábyrgð. Þetta þarftu að gera (við erum öll með þér):
a)    Slíttu stjórnarsamstarfinu og vertu í forsæti minnihlutastjórnar fram að kosningum í vor. Vei, þeim sem ekki verja þá stjórn falli.
b)    Fáðu alþjóðlega sérfræðinga strax til að rannsaka hrunið – ekki skilgreina um of hvað skal kanna því það getur hamlað rannsókninni.
c)    Skiptu út í stjórnum fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Fagaðilar að borðinu.
d)    Leggðu það í dóm kjósenda í næstu kosningum hvort sækja eigi um aðild að ESB.

Að afloknum kosningum verður það vonandi hlutverk Samfylkingarinnar að leiða þjóðina fram á veginn. Stefnuskráin fyrir síðustu kosningar er ágætur leiðarvísir til þess.

Verði ekki gripið til þessara aðgerða næstu daga óttast ég að skaði íslensku þjóðarinnar verði enn meiri en nú er orðið. Vanhæfir þátttakendur og gerendur hrunsins eru enn við völd og störf í hinum ýmsu stofnunum og þá verður að stöðva. Það verður ekki gert með neinu öðru en að losna við þá gerspilltu valdaklíku sem við leiddum til áframhaldandi valda eftir síðustu kosningar."

Við þetta er svosem engu að bæta.

 


Fáránlegur Árni Matt

Ég glotti gjarnan innra með mér þegar sjálfstæðisþingmenn lýsa pirringi yfir því að Samfylkingarráðherrar lýsi skoðunum sínum á málefnum, þegar þær fara í bága við skoðanir sjálfstæðismanna. Nú er ég hins vegar orðinn verulega pirraður á fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar og því sem hann lætur út úr sér, - og framkvæmir, - einkum í tengslum við kjaradeilu ljósmæðra.

Kjaradeila ljósmæðra er orðin svo erfið sem hún er vegna þess að fjármálaráðherra veitir samninganefnd ríkisins ekki umboð til samninga; nefndin lifir ekki sjálfstæðu lífi og gerir ekkert nema fá til þess leyfi. Þannig að það stendur upp á Árna Matt að leysa deiluna. Þegar hann svo lætur sér sæma, í miðri stífri deilu, að stefna ljósmæðrum fyrir dómstóla vegna gruns um hópuppsagnir, er hann ekki að gera annað en að setja deiluna í enn harðari hnút. Við bætast svo fáránleg ummæli hans í tengslum við þessa kjaradeilu ljósmæðra um að menntun sé ekki algildur mælikvarði á laun heldur þurfi líka að meta þýðingu starfsins. Einhver vitlausustu ummæli sem hægt var að setja fram í tengslum við þessa deilu; eða ber að líta svo á að þýðing ljósmæðrastarfsins sé ekki meiri en svo að það sé réttlætanlegt að laun þeirra lækki við að bæta við sig menntun frá hjúkrunarfræðinámi til að verða ljósmæður?

Hvurslags eiginlega hugsanagangur fer fram í höfðinu á þessum manni? 


Sjálfstætt líf Landsvirkjunar?

Það munaði litlu að ferskjan stoppaði í kokinu á mér þegar ég horfði á það í sjónvarpinu mínu í gærkvöldi að Landsvirkjun væri að undirbúa nýja virkjun á hálendinu, Bjölluvirkjun. sem mér sýndist raunar að myndi fara inná svæði sem alls ekki á að snerta skv. stjórnarsáttmálanum (ef ég man rétt). Veiðivötn, Langisjór í stórhættu.

Ég þá var ég nýbúinn að hlusta - og horfa - á Össur staðfastan í ræðustóli Alþingis, þar sem hann beinlínis hóf á loft krepptan hnefa og sagði að ekki yrði hróflað við svæðum á borð við þessi (man ekki orðalagið) meðan þessi ríkisstjórn sæti.

Hvernig er það; lifir Landsvirkjun algjörlega sjálfstæðu lífi? Kemur þessu (ríkis)fyrirtæki ekkert það við sem ráðamenn stefna að?


Bregst nú krosstré

Þetta er þungbær játning, en ég verð samt að viðurkenna það: Mér finnst gaman að hlusta á umræður um fótbolta. Á það jafnvel til að horfa á næstum heila leiki bara til að geta verið með á nótunum þegar Þorsteinn Joð og viðmælendur hans hverju sinni spjalla að leiknum loknum. Ekki svo að skilja; ég er ekki antisportisti af hugsjón og reyni meira að segja að halda mér í formsvotti, en knattspyrna hefur aldrei verið málið. Aldrei átt uppáhaldslið hér á landi eða erlendis, glotti í fjarlægð yfir trúarbragðastyrjöldum aðdáendahópa ensku klúbbanna og vorkenni þessum greyum. En þættirnir hans Þorsteins Joð eru bara svo skemmtilegir að maður eiginlega verður að horfa, - og ekki sakar að viðmælendurnir eru gjarnan úr einhverjum alltöðrum geira en fótbolta og ræða af aðdáanlegri kaldhæðni og húmor um leikina. Toppurinn hingað til voru Kristrún Heimisdóttir og einhver aðdáandi Ítalíu (man ekki hvað hann heitir, en hann var góður). Þau voru mögnuð. Vegna þessara þátta  Þorsteins Joð er jafnvel hægt að fyrirgefa fréttatilflutning og Kastljósleysi. Þetta átti fyrir manni að liggja!

Vegna ritstjórnargreinar; þróunaraðstoð eða „útrás“?

Seinni ritstjórnargrein Moggans sl. þriðjudag fjallaði um viðtal við Einar Magnússon lyfjamálastjóra um háttalag lyfjafyrirtækja í Víetnam. Sem er vægast sagt hrollvekjandi og gefur ískyggilega mynd af því hvernig stórfyrirtæki nýta sér bág kjör og aðstæður til að leggja undir sig heilbrigðismarkaðinn; jafnvel beita áróðri til að grafa undan svokölluðum þjóðlegum lyfjum. Afar fróðlegt að lesa og staðfestir verstu grunsemdir okkar sem treystum svona stórhringjum ekki fyrir einu eða neinu.
En það er annað í viðtalinu við Einar sem er byggt á miklum misskilningi og höfundur ritstjórnargreinarinnar tekur undir þann misskilning og heldur honum á lofti. Það er þegar Einar ber saman þróunaraðstoð Dana og Svía. Danir noti þróunaraðstoð til að hygla dönskum fyrirtækjum og aðstoða þau við að koma sér upp mörkuðum. Svíar á hinn bóginn veiti þróunaraðstoð án skilyrða og vinni á forsendum heimamanna. Íslendingar og fleiri þjóðir geti lært af Svíum að greina á milli þróunaaðstoðar og viðskipta.
Þarna fara bæði Einar og höfundur ritstjórnargreinar þriðjudagsins í Mogganum með fleipur, sem ugglaust á sér skýringu í vanþekkingu, þótt iðulega hafi verið hamrað á þessu undanfarið í fjölmiðlum. Íslendingar hafa markað sér skíra stefnu í þróunarsamvinnu; hún er gerð á forsendum heimamanna. Við höfum notað sænsku aðferðina um langt árabil. Danir notuðu þá aðferð líka þar til fyrir nokkrum árum, en breyttu þá um stefnu.

Merkisárið 2008

Ég var að átta mig á því að árið í ár er merkisár, hvorki meira né minna. Það eru fimmtíu ár síðan fyrsti árgangurinn var útskrifaður í Gagnfræðaskólanum við Réttarholtsveg, Gaggó Rétt. Þar með eru líka fimmtíu ár síðan ég hóf sjómennskuferil (fyrsta brottför 16. maí 1958) sem með tímanum átti að leiða til skipstjórnar á togara; þar með einnig fimmtíu ár síðan ég byrjaði að reykja, því í þann tíð reyktu togarajaxlar, filterlausan Camel vel að merkja. Fimmtíu ár líka frá því ég smakkaði áfengi í fyrsta sinn, en ég var óttalegur eymingi í því fyrstu árin; það breyttist og svo breyttist það aftur til betra horfs. Og í ár, 24. apríl meira að segja, voru tuttugu ár síðan ég hætti að reykja; það var í 60 ára afmælisveislunni hans Erlings Viggóssonar sem ég var tóbakslaus í fyrsta sinn í þrjátíu ár og hefur ekki langa í tóbak allar götur síðan. Alveg satt.

Ég ætla ekki að halda upp á reykingarnar eða áfengið eða sjómennskuna sem varð hvort eð er endaslepp vegna bágrar sjónar (það var bannað að nota gleraugu ef maður ætlaði í Stýrimannaskólann; þar fór það), en ég ætla að halda upp á útskriftina úr Gaggó Rétt með skólafélögunum og ég ætla að hjálpa félaga Erlingi Viggóssyni að halda upp á áttræðisafmælið 1. maí. Þar verður örugglega gaman og fullt af fólki sem maður hefur ekki séð árum saman.

Hljómar þetta ekki soldið aldrað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband