Leita í fréttum mbl.is

Frelsi, jafnrétti og . . . systkinalag

Ég viðurkenni að ég á stundum pínlega auðvelt með að láta suma hluti fara í taugarnar á mér. En það stendur yfirleitt ekki lengi í einu og fyrr en varir er mér orðið sama um það sem áður pirraði mig. Eitt hefur þó enst árum saman. Það er tilhneigingin til að þynna út málfar og texta í takt við hugmyndafræðilega réttsýni. Rýna í textann og gæta þess að breyta kynbundnu orðalagi í það sem kalla mætti málfarslegt moð, til að tryggja að ekki halli á annað kynið (yfirleitt kvenkynið) í orðalagi. Jafnvel hinn dýrasti bókmenntatexti má sín einskis gagnvart þessari hneigð. Stundum minnir þetta mig á rannsóknarréttinn, þar sem allur vafi er túlkaður í þágu ákæruvaldsins. Nú hefur þessi pirringur tekið sig upp eina ferðina enn.
Ástæðan er orðalag í nýju biblíuþýðingunni. Einhverjir kunnugir kynnu að benda á að það sæti síst á mér að brúka munn yfir orðalagi í biblíunni, en hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á þessu riti út frá trúmálum þá er hitt staðreynd að textinn er á köflum ansi góður. En nú er m.a. búið að þynna hann út með hliðsjón af kyngreiningu. Kæru bræður heitir nú kæru systkin. Þetta finnst mér taka slagkraftinn úr ávarpinu. Þynna það. Og ber að viðurkenna á þessum tímapunkti að ég kann hvorki grísku né hebresku og hef aldrei litið frumtextann augum.
Segir ekki í góðri bók að Bergþóra hafi verið drengur góður? Í öllum bænum ekki hleypa málfarslögreglunni í Njálu. Hvernig myndi sú útkoma vera; Bergþóra var fín stelpa?
Og gamla góða baráttuópið um frelsi, jafnrétti og bræðralag, hvernig færi fyrir því?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Innilega sammála þér. Það sem mér finnst nefnilega fyrst og fremst athugavert við þessa nýju biblíuþýðingu er ekki það hvaða orð eru notuð um homma, heldur sá útþynnti stíll sem þarna virðist vera á ferðinni. Systkinablaðrið er eitt. Annað sem mér finnst athugavert er að fleirtölufornöfnum fyrstu og þriðju persónu er breytt og þannig vegið að hefðbundnu biblíumáli. Ég veit ekki hvað Bretum þætti ef þúanir yrðu teknar út úr þeirra biblíu, en hugsa að þeir yrðu ekki hressir. Sama gildir um þéringar og véringar hérlendis, þær eru ekki notaðar, en hluti af biblíumálshefðinni. Í þriðja lagi virðist málfarið almennt verulega útþynnt, að því er virðist án nokkurrar sérstakrar ástæðu. Ég á að minnsta kosti erfitt með að ímynda mér að fólk sem notið hefur lögbundinnar skólagöngu ætti að eiga í einhverjum sérstökum erfiðleikum með að skilja hina klassísku biblíuþýðingu.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.10.2007 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband