Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Lögbundið kynferði?

Ég var að horfa á Silfur Egils á sunnudaginn, sem oftar. Kom of seint og missti af fyrsta hanaslagnum en þegar ég mætti til leiks var verið að ræða hjónaband og samkynhneigða. Og ég er eiginlega handviss um að ég heyrði flokkssystur mína Steinunni Jóhannesdóttur halda því fram að fengju samkynhneigðir að ganga í hjónaband væri búið að taka það úr landslögum að hún væri kona. Er næstum til í að sverja að hún sagði þetta; efnislega ef ekki orðrétt. Mér brá svolítið. Ég þarf ekki annað en að svipta mig klæðum og kíkja í spegil til að sjá að ég er karl. Sama gæti Steinunn gert; með annarri niðurstöðu að sjálfsögðu.
Í alvöru talað; er ekki svona hystería dálítið hallærisleg?

Frelsi, jafnrétti og . . . systkinalag

Ég viðurkenni að ég á stundum pínlega auðvelt með að láta suma hluti fara í taugarnar á mér. En það stendur yfirleitt ekki lengi í einu og fyrr en varir er mér orðið sama um það sem áður pirraði mig. Eitt hefur þó enst árum saman. Það er tilhneigingin til að þynna út málfar og texta í takt við hugmyndafræðilega réttsýni. Rýna í textann og gæta þess að breyta kynbundnu orðalagi í það sem kalla mætti málfarslegt moð, til að tryggja að ekki halli á annað kynið (yfirleitt kvenkynið) í orðalagi. Jafnvel hinn dýrasti bókmenntatexti má sín einskis gagnvart þessari hneigð. Stundum minnir þetta mig á rannsóknarréttinn, þar sem allur vafi er túlkaður í þágu ákæruvaldsins. Nú hefur þessi pirringur tekið sig upp eina ferðina enn.
Ástæðan er orðalag í nýju biblíuþýðingunni. Einhverjir kunnugir kynnu að benda á að það sæti síst á mér að brúka munn yfir orðalagi í biblíunni, en hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á þessu riti út frá trúmálum þá er hitt staðreynd að textinn er á köflum ansi góður. En nú er m.a. búið að þynna hann út með hliðsjón af kyngreiningu. Kæru bræður heitir nú kæru systkin. Þetta finnst mér taka slagkraftinn úr ávarpinu. Þynna það. Og ber að viðurkenna á þessum tímapunkti að ég kann hvorki grísku né hebresku og hef aldrei litið frumtextann augum.
Segir ekki í góðri bók að Bergþóra hafi verið drengur góður? Í öllum bænum ekki hleypa málfarslögreglunni í Njálu. Hvernig myndi sú útkoma vera; Bergþóra var fín stelpa?
Og gamla góða baráttuópið um frelsi, jafnrétti og bræðralag, hvernig færi fyrir því?

Nei takk, ekki einkarekin fangelsi

Ef það er eitthvað sem íslenskt réttarkerfi þarf ekki á að halda eru það einkarekin fangelsi. Þetta hefur verið reynt annars staðar, svo sem í Bandaríkjunum og ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni lesið jákvæða dóma um slík fangelsi. Enda varla von til þess að slíkar stofnanir séu reknar með uppbyggingu þeirra sem þar eru vistaðir fyrir augum. Tilgangur fyrirtækja er að skila arði og það er einmitt mergurinn málsins í því sem maður hefur séð um svona einkarekin fangelsi að þar bitnar sparnaður í rekstri gjarnan á aðbúnaði og meðferð á föngunum.

Allur samanburður við Verndarheimilið í teigunum er út í hött; það er áfangaheimili, þar sem fangar fá tækifæri til að stunda vinnu og aðlaga sig samfélaginu áður en afplánun lýkur. Það hefur vissulega stífar reglur en er alls ekki fangelsiþ 


mbl.is Spurning hvort einkaaðilar eigi að koma að rekstri fangelsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Haukur Már Haraldsson
Haukur Már Haraldsson
Óforbetranlegur áhugamaður um stjórnmál og félagslegt réttlæti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband