Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.12.2007 | 09:05
Gagnsemi þróunaraðstoðar
Nokkuð hefur verið fjallað um þróunarhjálp síðustu daga, innan bloggheima og utan. Þar hafa einkum þrjár greinar vakið athygli mína; Sólrún María Ólafsdóttir ritar um þróunarhjálp og Malaví í Morgunblaðið 29. nóvember, Hannes Hólmsteinn Gissurarson um gagnslausa þróunaraðstoð í Fréttablaðið 30. nóvember og loks bloggar Ívar Pálsson um þróunarlausa aðstoð 1. desember.
Það er mikill munur á þessum þremur greinum, Sólrúnar Maríu annars vegar og hinum tveimur hins vegar. Þær eiga það hins vegar allar sameiginlegt að í þeim er vitnað til orða þeirra landlæknishjóna Sigurðar og Sigríðar í viðtölum eftir að þau komu heim eftir ársdvöl í Malaví.
Sólrún María hefur það framyfir þá félaga Hannes Hólmstein og Ívar að hún þekkir málefnið sem hún skrifar um, enda starfar hún hjá Þróunarhjálp Sameinuðu þjóðanna. Hún veit hvað hugtakið þróunaraðstoð felur í sér. Það virðast þeir Hannes og Ívar hins vegar ekki gera; a.m.k. fer það svo, að þegar þeir leita dæma til að sýna fram á tilgangsleysi þróunaraðstoðar þá grípa þeir til dæma á borð við matargjafir og peningagjafir til spilltra valdhafa í þróunarríkjunum. Slíkar gjafir eru ekki þróunaraðstoð, ekki heldur fatagjafir sem oft hafa átt sér stað eftir velheppnaðar safnanir hér á landi og annars staðar. Þróunaraðstoð er aðstoð við uppbyggingu og getur tekið mörg ár; fata- og matargjafir eru neyðarhjálp sem ætlað er að bæta úr brýnni, tímabundinni neyð. Ég vona að þeir Hannes Hólmsteinn og Ívar telji það ekki hugmyndafræðilega rangt að koma í veg fyrir að fólk deyji úr hungri eða krókni úr kulda.
Það verður að segjast eins og er að þeir sem til þekktu furðuðu sig nokkuð á þeim ummælum sem höfð voru eftir landlæknishjónunum við komuna heim frá Malaví. Ekki vegna þess að þau væru í eðli sínu röng, heldur vegna þess að framsetningin var slík að halda hefði mátt að stofnunin sem þau hjónin unnu hjá þetta ár, Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ), iðkaði þau vinnubrögð sem þau voru að gagnrýna, m.a. gagnslausar peningagjafir. Sem er alrangt.
Íslendingar hafa markað ákveðna stefnu í þróunaraðstoð sinni við þriðja heims ríki. Stefnan sú byggist á að gera heimamenn færa um að hjálpa sér sjálfir. Þessi stefna kristallast í starfi ÞSSÍ, sem tekið hefur þátt í fjölda verkefna í Afríkuríkjunum Úganda, Malaví, Mósambík og Namibíu, auk tiltölulega nýrra verkefna í Níkaragúa og á Sri Lanka. Þessi verkefni eru á sviði menntamála (fullorðinsfræðsla, leikskólar, barnaskólar, heyrnleysingjaskólar) og annarra félagslegra málefna.
Ágætis dæmi um eðli starfsins eru t.d. sjómannaskólinn í Walvis Bay, Namibíu og rannsóknarstofa fiskiðnaðarins í Mapútó, Mósambík. Á báðum stöðum var starfsfólk menntað og þjálfað, kennarar og stjórnendur á öllum sviðum í Walvis Bay og starfsmenn, rannsóknarfólk og stjórnendur víða að af landinu í Mapútó. Reksturinn er kominn í það horf að Namibíumenn hafa tekið alfarið við sjómannaskólanum í Walvis Bay, sem viðurkennt er að er fullkomnasti sjómannaskóli í Afríku og þótt víðar væri leitað. Í rannsóknarstofu fiskiðnaðarins í Mosambík hefur verið byggt upp öflugt eftirlitskerfi með gæðum sjávarafla, þar sem lokamarkmiðið er að ná þeim gæðastaðli sem þarf til að komast inn á markað Evrópusambandsins. Á báðum þessum stöðum er lokamarkið að gera íslenska leiðbeinendur þarflausa, þannig að heimamenn geti tekið við og rekið sínar eigin sjálfbæru stofnanir, með öruggum tekjustofnum. Í Walvis Bay er því takmarki náð og enginn Íslendingur eftir við skólann, Mósambík er farið að flytja fisk á Evrópumarkað, beinlínis vegna þess gæðastarfs sem rannsóknarstofan hefur verið að skipuleggja vítt um landið með aðstoð ÞSSÍ.
Þetta er þróunarhjálp, þróunarsamvinna sem á sér stað í fullkominni samvinnu við sveitarstjórnir viðkomandi svæðis og það ráðuneyti sem viðkomandi starfsemi heyrir undir, á forsendum heimamanna. Að telja slíka aðstoða gagnslausa (HHG) eða þróunarlausa (ÍP) felur í sér fullkomna vanþekkingu á málefninu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.11.2007 | 14:15
Sri Lanka - falleg eyja í hernaðarástandi
Það var - og er enn - ansi skrítið ástandið í Colombo, höfuðborg Sri Lanka í síðustu viku, þegar ég var þar ásamt Sighvati Björgvinssyni framkvæmdastjóra og Gunnari Salvarssyni upplýsingafulltrúa Þróunarsamvinnustofnunar (ÞSSÍ/Iceida). Það er hernaðarástand á eyjunni og beðið eftir hefndaraðgerðum Tamíla eftir að nokkrir úr röðum forystumanna þeirra voru felldir í loftárás fyrir nokkrum vikum. Á öllum götum voru hermenn og lögreglumenn, gráir fyrir járnum, og vegatálmanir, þar sem leitað var á grunsamlegu fólki og í farartækjum. Við þremenningarnir erum ekki sérlega tamílalegir útlits og þá ekki heldur þeir Árni Helgason stöðvarstjóri og Gunnar Þórðarson verkefnisstjóri ÞSSÍ á eyjunni. Við vorum raunar oftast í bíl merktum Iceida og því ekki stöðvaðir við vegatálma heldur veifað áfram.
Þann 27. nóvember er hetjudagur Tamíla og menn búast allteins við að þeir grípi til hefndaraðgerða til að geta stært sig af þeim við það tækifæri. Hugga sig þó við að Tamílarnir hafa yfirleitt ekki ráðist á skotmörk sem valdið geta almenningi skaða heldur svokölluð "soft targets", sem valda skaða á "infrastrúktúrnum"; reyna kannski að taka ráðherra með í leiðinni.
Hvað sem vegatálmum leið og hermönnum og lögreglumönnum þá var umferðarmenningin kannski forvitnilegust, eða kannski skorturinn á sýnilegum umferðarreglum. Ég var eiginlega mest hissa á að sjá hvergi dældaðan bíl því umferðin í Colombo er svo fullkomlega kaótísk að undrun sætir. Ég sá t.d. hvergi merki um hámarkshraða, en bílstjórnarnir voru þó duglegir við að gefa stefnuljós þegar þeir létu vaða fyrir aðra bíla og flautan var óspart notuð.
En það er bannað að að taka myndir þar sem hernaðarástand ríkir; ekki má taka mynd þar sem hermenn eða lögreglumenn voru á ferli og raunar alls ekki af neinu; eitt sinn er ég var í göngutúr eftir einni götunni tók ég upp myndavélina og mundaði hana í átt að gilskorningi sem þarna var, með yfirgrónum járnbrautarteinum og Indlandshafið í baksýn, flott mótív. Þá var klappað á öxlina á mér og þar var srilanskur hermaður með vélbyssu um öxl og kurteislegt bros á vör. "Forbidden," sagði hann. "En þetta er ekki einu sinni militarískt myndefni," mótmælti ég. "Sorry, forbidden," sagði dátinn kurteislega og brosti enn. Svo ég vitaskuld hætti við myndatökuna.
Þetta er skrítið andrúmsloft og blessunarlega langt frá okkar íslenska veruleika.
Miklir fundir - falleg eyja
Svona ferðir eru vinnuferðir í orðsins fyllstu. Við sátum fundi með sjávarútvegsráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og gæðarannsóknarstofnun í fiskimálum, auk grasrótarsamtaka sem Iceida er í samvinnu við í uppbyggingu í fiskimannaþorpum. Þar var meðal annars rætt um mögulega þátttöku ÞSSÍ í félagslegri uppbyggingu í mun fleiri fiskimannaþorpum á sunnan- og austanverðri eynni. Afar áhugaverð verkefni.
Við fórum og skoðuðum tvö þessara þorpa og þá aðstöðu sem ÞSSÍ er að aðstoða heimamenn við að koma upp. Þá kynntumst við í fyrsta lagi þeirri ótrúlegu náttúrufegurð sem þessi litla eyja hefur yfir að ráða og eyjaskeggjar eru sér fyllilega meðvitaðir um (Sri Lanka = Paradís heimsins). Í öðru lagi fengum við að reyna vegakerfi sem annar í raun ekki þeirri umferð sem um það fer; Árni sagði okkur að gera mætti ráð fyrir að komast 30 km vegalengd til jafnaðar á klukkutíma. Í þriðja lagi kynntumst við því sama þarna og raunin hefur verið í þeim Afríkulöndum sem ég hef heimsótt í sömu erindagjörðum; mikil aðdáun á skilvirkni í vinnubrögðum ÞSSÍ og þakklæti fyrir það starf sem stofnunin vinnur, í samstarfi við heimamenn. Þarna ræður örugglega ekki síst sú staðreynd að Þróunarsamvinnustofnun vinnur í samvinnu við heimamenn að verkefnum sem þeir velja og þurfa á að halda, á forsendum heimamanna.
2.11.2007 | 18:11
Góður árangur alvöru flokksstarfs
Góður vinur minn, framsóknarmaður raunar, hafði einmitt orð á þessu við mig um daginn. Sjálfur hafði ég svo sem ekki tekið sérstaklega eftir þessu, kannski ómeðvitað gert ráð fyrir þessum gangi mála. En þegar framarinn vinur minn hafði orð á þessu áttaði ég mig á því að einmitt þannig höfðu málin gengið fyrir sig, smurt.
Það þurfti svo sem ekki að velta lengi vöngum yfir ástæðunni. Þetta er árangur þess mikla starfs sem málefnahópar flokksins um flesta þætti samfélagsins hafa unnið undanfarin ár. Ýmsir andstæðingar flokksins gerðu grín að þessari áherslu á málefnahópa; töldu nær að leggja áherslu á dægurpólitíkina frá degi til dags. En nú hefur þetta starf sannað sig; flokkurinn mætti til samstarfsins með stefnu tilbúna í öllum málum. Fékk vitaskuld ekki allt samþykkt í stjórnarmyndunarviðræðum en þessi klára afstaða hefur efalaust átt þátt í því að viðræðurnar gengu hratt og vel fyrir sig og að áherslurnar í stjórnarstarfinu eru allt aðrar og lystugri en þær sem giltu í síðustu ríkisstjórn.
Það verður svo að segjast eins og er, að ráðherrar flokksins hafa staðið sig með sóma og miðað við yfirlýsingar þeirra eiga þeir eftir að styrkja stöðu flokksins enn frekar.
Svona á að vinna.
1.11.2007 | 14:21
Sniðgöngum Krónuna
Hvar er eiginlega siðferði svona fólks? Er þetta kannski bara ríkjandi viðskiptasiðferði; að leitast skuli við að láta neytendur greiða eins hátt verð fyrir vöru og þjónustu og hægt er að komast upp með?
Ef eitthvert vit væri í íslenskum neytendum myndu þeir auðvitað sniðganga þessar verslanir, hætta að kaupa þar inn og snúa sér annað. En því miður er lítil von til þess; Íslendingar eru orðnir svo vanir því að láta valta yfir sig með alls konar skepnuskap án þess að bera hönd fyrir höfuð sér. En samt: Ég skora á landsmenn að hætta að versla við Krónuna!
Það er bersýnilegt að frumvarp Björgvins G. um neytendavernd er borið fram á réttum tíma. Og kannski verða allir þeir þingmenn sem lýstu harmi sínum yfir skollaleik lágvöruverslananna á Alþingi í dag tilbúnir til að styðja það.
23.10.2007 | 09:07
Lögbundið kynferði?
Í alvöru talað; er ekki svona hystería dálítið hallærisleg?
23.10.2007 | 08:25
Frelsi, jafnrétti og . . . systkinalag
Ástæðan er orðalag í nýju biblíuþýðingunni. Einhverjir kunnugir kynnu að benda á að það sæti síst á mér að brúka munn yfir orðalagi í biblíunni, en hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á þessu riti út frá trúmálum þá er hitt staðreynd að textinn er á köflum ansi góður. En nú er m.a. búið að þynna hann út með hliðsjón af kyngreiningu. Kæru bræður heitir nú kæru systkin. Þetta finnst mér taka slagkraftinn úr ávarpinu. Þynna það. Og ber að viðurkenna á þessum tímapunkti að ég kann hvorki grísku né hebresku og hef aldrei litið frumtextann augum.
Segir ekki í góðri bók að Bergþóra hafi verið drengur góður? Í öllum bænum ekki hleypa málfarslögreglunni í Njálu. Hvernig myndi sú útkoma vera; Bergþóra var fín stelpa?
Og gamla góða baráttuópið um frelsi, jafnrétti og bræðralag, hvernig færi fyrir því?
3.10.2007 | 15:29
Nei takk, ekki einkarekin fangelsi
Ef það er eitthvað sem íslenskt réttarkerfi þarf ekki á að halda eru það einkarekin fangelsi. Þetta hefur verið reynt annars staðar, svo sem í Bandaríkjunum og ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni lesið jákvæða dóma um slík fangelsi. Enda varla von til þess að slíkar stofnanir séu reknar með uppbyggingu þeirra sem þar eru vistaðir fyrir augum. Tilgangur fyrirtækja er að skila arði og það er einmitt mergurinn málsins í því sem maður hefur séð um svona einkarekin fangelsi að þar bitnar sparnaður í rekstri gjarnan á aðbúnaði og meðferð á föngunum.
Allur samanburður við Verndarheimilið í teigunum er út í hött; það er áfangaheimili, þar sem fangar fá tækifæri til að stunda vinnu og aðlaga sig samfélaginu áður en afplánun lýkur. Það hefur vissulega stífar reglur en er alls ekki fangelsiþ
Spurning hvort einkaaðilar eigi að koma að rekstri fangelsa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.9.2007 | 12:57
Hver eru frumgildi samfélagsins?
Hvað er eiginlega í gangi hjá lögreglunni? Þarf ekki að fara slá á hendurnar á þeim yfirvöldum sem krefjast þess að persónu sé vísað úr landi fyrir að hafa tekið þátt í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun? Er ekki allt í lagi hjá þeim borðalagða ríkislögreglustjóra?
Samkvæmt fréttum er krafa lögreglunnar byggð á því að þessi Miriam hafi fengið greiðslu fyrir að stunda mótmæli, hún hafi stofnað lífi og limum fólks í hættu og - og það er magnaðasta forsendan - að hún hafi brotið "gegn frumgildum samfélagsins". Þetta með greiðsluna er réttlætt með frétt í RÚV sem aftur byggðist á grínauglýsingu í Fréttablaðinu. Að sögn ógnaði hún lífi og limum fólks þegar hún klifraði upp í mastur eða bómu til að festa mótmælaborða. Við það athæfi var hún sjálf í öryggislínu og enginn nálægur til að geta orðið fyrir hnjaski, á limum eða lífi. Þessar ásakanir byggja því á ákaflega hæpnum forsendum. Þá eru frumgildin eftir . . .
Hver eru frumgildi íslensks samfélags? Tjáningarfrelsi er talið vera eitt grundvallaratriði í mannréttindum sérhvers lýðræðisríkis; er það eitt af frumgildunum sem þessi Miriam hefur unnið gegn? Annar þáttur þessara frumgilda er málfrelsi; hefur hún unnið gegn því? Maður hlýtur að krefjast þess að lögreglan skýri það fyrir almenningi gegn hvaða grunngildum þessi stúlka hefur brotið.
Gæti það verið að eitt af frumgildunum sé að einstaklingar skuli ekki mótmæla því sem þeir eru á móti? Af einhverjum ástæðum virðist lögreglan vera á þeirri skoðun að mótmæli séu glæpur þótt friðsamleg séu.
Vinsamlegast skýrið þetta fyrir okkur sem eru dálítið áttavillt í öllu þessu standi.
Kannski er rétt að taka það fram að ég þekki hvorki haus né sporð á þessari bresku stúlku, - en ég lít svo á að rétturinn til að mótmæla sé eitt af frumgildum samfélagsins.
23.9.2007 | 11:17
Kímnigáfa Davíðs ræður ekki lengur
En maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Er hægt að komast að einhverri annarri niðurstöðu ef litið er í kringum sig með eugun sæmilega opin?
22.9.2007 | 18:33
Sollu fyrir Condý? Dream on!
Ég las einhvers staðar að í næstu viku myndi Ingibjörg Sólrún hitta Condoleezzu Rice á fundi. Svona er það; þegar maður er ráðherra ræður maður ekki endilega við hvern maður talar. En þetta minnti mig á að ég var að lesa amerískan fréttavef um daginn, um það þegar Íslendingar kölluðu heim lið sitt frá Írak. Í athugasemdum um fréttina gerðu menn góðlátlegt grín að fjölmenni íslenska liðsins og áhrifum þess í "uppbyggingar"ferlinu. Auk þess að gera dálítið grín af forsetanum sínum:
"Dang....... I wish I could hear Bush mangle that Foreign Minister's name...."
Annar lagði fram fróma ósk og skiljanlega:
"I wonder if our Icelandic friends would be willing to trade Ingibjörg Sólrún Gísladóttir for Condaleeza Rice? We would be happy to throw in Doug Feith and draft choices to be named later."
Þetta er vissulega skiljanleg bón, en sorrí vinir vorir í vestri, ekki glæta.
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Vefsvæðið mitt Flest það sem máli skiptir um mig og mína
- Samfylkingin Flokkurinn sem máli skiptir
- Kennarasamband Íslands Heildarsamtök kennara
- Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins Vinnustaðurinn minn
- Upplýsingatækniskólinn Merkasti skólinn i Tækniskólanum
- Þróunarsamvinnustofnun Starfsemi Íslendinga með þróunarlöndum